Dæmdur fyrir að skjóta 15 ára innbrotsþjóf

Morðinginn heldur hér á riffli í glugganum sínum þegar atvikið …
Morðinginn heldur hér á riffli í glugganum sínum þegar atvikið var sviðsett í réttarhöldunum. AFP

Frakki, búsettur í Marseille í Frakklandi, var í dag dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir að verða táningi að bana með rifflinum sínum með skoti út um gluggann á heimili sínu. Táningurinn var hlaupa af vettvangi eftir að hafa brotist inn í búð í nágrenninu þegar maðurinn sá til hans og skaut hann beint í hjartastað. 

Atvikið átti sér stað 2. maí árið 2011. Morðinginn hafði stuttu áður í tvígang þurft að hræða innbrotsþjófa frá búðinni með rifflinum sínum en þetta var í fyrsta skiptið sem hann hleypti af skoti. Táningurinn var 15 ára gamall drengur að nafni Antoine Rodriguez og hafði lögreglan aldrei áður þurft að hafa afskipti af honum. „Þegar við erum 15 ára vitum við ekki alltaf hvað við eigum að gera, og við gerum oft heimskulega hluti,“ sagði lögmaður drengsins fyrir dómi. 

Lögmaður morðingjans segir að um slysaskot hafi verið að ræða. „Maðurinn ætlaði aldrei að skjóta drenginn, heldur bara hræða hann. Um er að ræða hræðilegt slys.“

Morðinginn sýndi þó ekki mikla iðrun fyrir dómi. „Ef þetta myndi gerast aftur, á ég þá bara að loka glugganum? Og láta þau stela því sem þau vilja og skipta mér ekkert af því?“ sagði maðurinn.

Búist er við að dómurinn veki upp umræðu um refsingar fyrir að vernda eignarrétt manna. Svipað atvik kom upp í fyrra þegar eigandi skartgripaverslunar elti tvo þjófa sem rænt höfðu verslun hans, og skaut hann annan þjófinn í bakið með þeim afleiðingum að hann lést. Mikil reiði var í samfélaginu, en margir sýndu líka búðareigandanum stuðning. Meira að segja var stofnuð sérstakur Facebook-hópur fyrir þá sem studdu við búðareigandann og fékk sá hópur mörg þúsund meðlimi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert