Ótti heimsins við ebólu eykst

Allur er varinn góður þegar kemur að ebólu.
Allur er varinn góður þegar kemur að ebólu. AFP

Dauðsföll af völdum ebólu eru komin yfir fjögur þúsund og tilkynnt tilvik hennar nálgast níu þúsund. Viðbúnaður hefur verið aukinn á fjölmörgum flugvöllum í vestrænum ríkjum þar sem vaxandi ótti er við að veikin breiði úr sér. Þá hafa ýmis ríki varað íbúa sína við að ferðast til vesturhluta Afríku.

Sóttvarnareftirlit Bandaríkjanna (CDC) áætlar að fjöldi tilvika ebólu nái 1,4 milljónum fyrir árslok grípi ríki heims ekki til róttækra aðgerða til að hefta úrbreiðslu veikinnar. Hingað til hafa tilvik verið einangruð við sjö ríki en eftir því sem tilvikum fjölgar og smitaðir ferðast á milli landa mun ebóla dreifa sér víðar og hraðar.

Sameinuðu þjóðirnar og leiðtogar Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne hafa kallað eftir frekari aðstoð frá alþjóðasamfélaginu við baráttuna gegn ebólu en þar hafa langflest tilvik komið upp og dauðsföll því einnig. Þannig átti forseti Gíneu fund með Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og sagði hún AGS tilbúið að aðstoða á allan þátt hátt sem mögulegt væri.

Þá hefur Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagt að ekki þýði að setja þetta mál í nefnd heldur þurfi að grípa til aðgerða og efla þær sem fyrir eru alla vega tuttugufalt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert