Banna alla starfsemi tengda Ríki íslams

Liðsmaður Ríkis íslams.
Liðsmaður Ríkis íslams. AFP

Stjórnvöld í Sviss hafa í hyggju að fara að dæmi Þjóðverja og banna hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og alla starfsemi þeim tengdum. Bannið var samþykkt í svissnesku sambandsstjórninni á miðvikudag og kemur það til framkvæmda næsta fimmtudag.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.ch að bannið verði í gildi í sex mánuði. Fram kemur í yfirlýsingu frá sambandsstjórninni að Ríki íslams hafi framið grafalvarleg brot á mannréttinum. Vegna vaxandi ofbeldisverka samtakanna á undanförnum viku hafi stjórnin ákveðið að banna þau. Bannið nær til sérhverrar starfsemi af hálfu Ríkis íslams innan Sviss sem og sérhverrar starfsemi sem felur í sér stuðning við samtökin. Slíkur stuðningur gæti meðal annars falið í sér að reka áróður fyrir hönd Ríkis íslams, safna fjármagni fyrir samtökin eða nýjum liðsmönnum.

Brot gegn banninu geta varðað fangelsi allt að þremur árum eða sekt. Samtök sem brjóta gegn banninu geta átt von á því að hald verði lagt á eignir þeirra. Ákvörðun stjórnvalda kemur í kjölfar fréttaflutnings af starfsemi íslamista í Sviss. Greint var frá því í lok september að þrír Írakar hefðu verið handteknir í landinu í mars vegna gruns um að þeir væru að skipuleggja árásir á vegum Ríkis íslams og aðstoða 40 einstaklinga með lögheimili í Sviss við að komast til miðausturlanda til þess að ganga til liðs við samtökin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert