Við viljum meiri orku, takk, helst endalausa orku! Paradís! Leitin að orkulind sem aldrei þrýtur og er laus við alla ókosti hefðbundins jarðefnaeldsneytis hefur staðið lengi yfir. En nú hefur vonin fengið byr í seglin eftir skýrslu sem ítalskir og sænskir vísindamenn hafa gefið út og fjallar um óvæntar niðurstöður tilrauna með E-Cat. Um er að ræða kjarnorkuofn sem knúinn er örlitlu af nikkeldufti sem blandað er vetni og öðrum efnum, aðallega litíum. Í ljós kom í mars að mikil umframorka myndaðist í ofninum og það sem ekki vekur síður athygli: engin geislavirkni mældist fyrir utan hann.
Rannsóknastofnun sænska raforkuiðnaðarins, Elforsk, segir að tilraunirnar hafi staðið yfir í mánuð. Þær fóru fram á vegum Uppsalaháskóla, Stokkhólmsháskóla og háskólans í Bologna og gerð var skýrsla um málið. „Þar er lýst varmaþróun sem ekki er hægt að skýra með efnabreytingum,“ segir í grein á vefsíðu Elforsk. „Í greiningu á eldsneytinu komu fram augljósar breytingar á ísótópum sem þess í stað benda til þess að um sé að ræða kjarnahvörf við lágan hita. Þetta gefur til kynna að við getum verið að læra nýja aðferð við að hagnýta okkur kjarnorku, sennilega án þess að því fylgi geislun og geislavirkur úrgangur. Þessi uppgötvun gæti haft afar mikla þýðingu fyrir orkubúskap heimsins.“
Áður hafa verið gerðar svipaðar tilraunir á vegum Elforsk sem bentu til þess að óútskýrð umframorka myndaðist og þessar nýju, umfangsmiklu tilraunir í tveim löndum hafa staðfest þær niðurstöður. Kjarnahvörf af þessu tagi eru nefnd lághitakjarnahvörf (e. Low Energy Nuclear Reactions eða LENR). Ekki er kjarnaofninn stór, aðalhluti hans er aðeins um 20 sentimetrar að lengd og hitinn í ofninum var um 1.400 gráður á Celsíus sem ekki telst mikið í slíkum rannsóknum. Orkan sem myndaðist var um 1.500 kílóvattstundir, þrisvar til fjórum sinnum meiri en orkan sem var fyrir hendi í eldsneytinu sem var alls eitt gramm.
Ljóst þykir að ef mönnum tekst að framleiða slíka kjarnorku með markvissum hætti og hafa fulla stjórn á ferlinu gæti það umbylt öllu orkukerfi heimsbyggðarinnar. Hrein orka, orka sem ekki mengar loftið og hefur því lítil sem engin áhrif á loftslag, yrði innan seilingar og yrði auk þess mjög ódýr, að sögn Elforsk.
Ef... Það er þetta litla orð sem fær menn til að staldra við áður en þeir selja öll hlutabréfin sín í kolanámum og búa sig undir að raforka verði svo ódýr að rafknúnir bílar sigri heiminn. Vissulega er nóg til af kolum og gas, olía og bensín er að sumu leyti ákaflega heppilegt eldsneyti í samgöngutækjum vegna þess hve einfalt er að koma því fyrir í sjálfu tækinu, í tankinum. En jarðefnaeldsneyti mun einhvern tíma þrjóta og það mengar andrúmsloftið. Þess vegna er brýnt að kanna aðrar leiðir. Jarðhiti, vatns- og vindorka eru góð viðbót en munu aldrei leysa allan orkuvandann.
Eitt af því sem lengi hefur vakið vonir er svokallaður kaldur samruni (e. cold fusion) atóma. Kjarnahvörf, samruni atóma, fara stöðugt fram í sólunni, að vísu við nokkurra tugmilljóna stiga hita, og eru því í reynd undirstaða allrar orku jarðarbúa. En menn vonast til að geta framleitt ótæmandi og mengunarlausa orku við stofuhita úr örlitlu hráefni sem nóg er til af ef þeim tekst að ná stjórn á ferlinu.
Árið 1989 varð mikið írafár þegar tveir heimsþekktir vísindamenn, Martin Fleischmann og Stanley Pons, sögðust hafa framleitt hitaorku sem hlyti að hafa orðið til við kaldan samruna. Og geislunin væri nánast engin. En í ljós kom að um misskilning var að ræða og næstu árin var talið að hugmyndin um orkuframleiðslu með köldum samruna væri dauð.
Ef... En sumir héldu áfram að reyna og fyrir um áratug fór áhuginn að aukast á ný. Í Cadarache-skóginum í Provence í sunnanverðu Frakklandi hefur verið hrundið af stokkunum alþjóðlegri tilraunastöð 34 ríkja, Iter, sem kostaði um 13 milljarða dollara, það slagar hátt upp í landsframleiðslu Íslendinga. Markmið Iter er að finna leið til að nýta kaldan samruna, ofgnótt hreinnar orku. En ef til vill eru E-Cat-mennirnir í Svíþjóð búnir að finna réttu lausnina. Ef...