Allt að 180 þúsund manns hafa flúið átök á milli íraska stjórnarhersins og liðsmanna Ríkis íslams við borgina Hit í Anbar-héraði í Írak. BBC segir frá þessu í dag.
Fólkið sem er á flótta hélt í austur í átt að borginni Ramadi. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum þurfa flóttamennirnir nauðsynlega mat, teppi og lyf.
Ríki íslams náði yfirráðum í Hit fyrr í mánuðinum. Sérfræðingar telja að ef hryðjuverkasamtökin nái yfirráðum í Anbar-héraði muni það auðvelda samtökunum að ná yfirráðum í höfuðborg Íraks, Bagdad.
Að sögn öryggissveita íraska hersins hafa liðsmenn Ríkis íslams tekið yfir herstöð sem íraski herinn hafði yfirgefið. Hún er í um átta kílómetra fjarlægð frá Hit. Þar gátu vígamennirnir nálgast herbifreiðir og skriðdreka. Eftir að þeir tæmdu stöðina kveiktu þeir í henni.
Um helgina báðu yfirvöld í Anbar um hjálp frá hernum vegna hryðjuverkasamtakanna. Samkvæmt frétt BBC báðu þau sérstaklega um hjálp frá bandaríska hernum.
Hins vegar hefur forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, þvertekið fyrir það að erlendir hermenn muni berjast í Írak.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, sagði á blaðamannafundi í Kaíró í Egyptalandi um helgina að Írakar þyrftu að berjast á jörðu niðri. „Þegar allt kemur til alls eru það Írakar sem þurfa að ná Írak aftur. Það eru Írakar í Anbar sem þurfa að berjast fyrir héraðinu,“ sagði hann.
Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að 30 þúsund fjölskyldur hafi þurft að yfirgefa Hit síðustu daga. Fyrir margar þeirra er þetta í þriðja eða fjórða skiptið sem þær flýja Ríki íslams.
Í grein sem birtist í veftímariti Ríkis íslams, Daqib, kemur fram að fjöldi jasída hafi verið seldur í þrældóm af samtökunum. Jasídar bjuggu á svæði í Norðvestur-Írak sem Ríki íslams tók yfir í ágúst. Í greininni kemur fram að fólkinu hafi verið skipt upp eftir sjaríalögum múslíma og þrældómurinn sé „leið fólksins að íslam“.
Mannréttindasamtök hafa sagt frá því að Ríki íslams hafi kerfisbundið aðskilið konur og stúlkur frá fjölskyldum sínum til þess að neyða þær til að giftast liðsmönnum samtakanna.
Fregnir af grimmdarverkum samtakanna hafa einnig borist frá sýrlensku borginni Kobane. Þar berjast liðsmenn Ríkis íslams við Kúrda. Vitni segja að vígamenn samtakanna hálshöggvi þá sem reyna að flýja.
Embættismaður frá Kobane, Feyza Abdi, sem er nú flóttamaður í Tyrklandi, segir í samtali við BBC að samtökin hafi nú yfirráð í suður-, austur- og vesturhluta Kobane. Hefur hann varað við fjöldamorði ef þeir ná norðurhlutanum líka en hann stendur við landamæri Tyrklands.
„Það er það sem þeir vilja. Loka bæinn af, stöðva öll samskipti við Tyrkland og halda áfram villimennsku sinni,“ segir hann.
Kúrdar hafa sagst þurfa nauðsynlega meiri vopn og skotfæri til þess að berjast við vígamennina. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði frá því í dag að bandarískar og sádi-arabískar herþotur hefðu gert átta loftárásir gegn Ríki íslams í kringum Kobane síðasta sólarhringinn.