Útlendingahatur minnkar í Evrópu

AFP

Dregið hefur úr útlendingahatri í Evrópu á sama tíma og stuðningur við öfgaflokka sem berjast gegn innflytjendum eykst. Þetta kemur fram í nýrri sænskri rannsókn sem kynnt verður í dag.

Í sænsku þingkosningunum í síðasta mánuði fékk þjóðernisflokkurinn Svíþjóðardemókratar 12,9% atkvæða sem er rúmlega tvöfalt meira fylgi en þeir fengu í kosningunum á undan. Uppgangur fleiri slíkra flokka hefur verið töluverður víða í Evrópu undanfarin ár en þrátt fyrir það segja vísindamenn við Umeå-háskólann tal um aukið útlendingahatur í Evrópu misskilning.

Félagsfræðingarnir Andrea Bohman og Mikael Hjerm unnu að rannsókninni sem fjallað er um í Dagens Nyheder í dag. Þeir telja að boðskapur þessara öfgaflokka sé settur fram á mun aðgengilegri hátt en áður og þannig framreiddur að hann höfði til kjósenda.

Það sé því ekki endilega áróður gegn innflytjendum sem höfðar til kjósenda, segir í grein þeirra í DN í dag.

Hjerm fékk dauðahótanir eftir að hafa tjáð sig um rasisma í fjölmiðlum í Svíþjóð fyrr á árinu. Þá sagði hann að það væri einkum gamalt fólk sem ólst upp á öðrum tíma en nú er sem væri fordómafyllst. Þegar þetta fólk geispar golunni fer ástandið að batna, sagði Hjerm á sínum tíma við litla hrifningu rasista.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert