Enn er allt á huldu um hvernig hjúkrunarfræðingurinn Nina Pham smitaðist af ebólu en ástand hennar er stöðugt, að sögn bandarískra fjölmiðla. Hún fékk í gærkvöldi blóðgjöf frá bandarískum lækni sem lifði af ebólusmit.
Pham veiktist eftir að hafa sinnt Thomas Eric Duncan, sem lést á sjúkrahúsinu sem hún starfar á í Dallas. Hún er fyrst til þess að smitast af ebólu í Bandaríkjunum en alls eru yfir fjögur þúsund látnir úr sjúkdómnum, flestir í Vestur-Afríku.
Í gærkvöldi fékk hún blóðgjöf frá Kent Brantley, lækni í Texas sem lifði af ebólu. Ástand hennar er stöðugt segir í bandarískum fjölmiðlum en Brantley fékk á sínum tíma blóðgjöf frá öðrum sjúklingi sem hafði lifað af ebólusmit. Vonir eru bundnar við að blóðgjöf geti komið að gagni í baráttunni við ebólu.
Í Bretlandi var byrjað að skanna farþega á Heathrow-flugvelli sem eru að koma til Bretlands frá ríkjum þar sem hætta er á ebólusmiti. Heilbrigðisráðherra Bretlands segir að búast megi við því að nokkur tilvik ebólu komi upp í landinu fyrir jól. Fyrst verður um skönnun að ræða í flugstöðvarbyggingu 1 en í hinum síðar í vikunni. Eins verður byrjað að skanna farþega á Gatwick og í Eurostar fyrir lok vikunnar.
Samkvæmt BBC komu um eitt þúsund manns til Bretlands í september frá þeim ríkjum Vestur-Afríku þar sem ebóla hefur geisað.