Áströlsk yfirvöld segja að leitin að horfnu malasísku þotunni, MH370, hafi engan árangur borið enn sem komið er. Þegar hefur verið leitað á 670 ferkílómetra svæði neðansjávar.
Alls voru 239 manns um borð í þotunni er hún hvarf þann 8. mars á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Þrátt fyrir að gríðarlega mikið hafi verið lagt í leitina bæði á sjó og úr lofti hefur ekkert fundist sem getur bent til þess hvar flakið geti verið.
Helst er talið að hún hafi brotlent sunnarlega í Indlandshafi en ekki hefur tekist að finna ástæðuna fyrir því hvers vegna þotan fór svo mikið út af leið. Enn er leitað neðansjávar með sérstökum búnaði til slíkrar leitar.