Annar starfsmaður sjúkrahússins í Dallas þar sem sjúklingur smitaður af ebólu lést, hefur greinst með ebólusmit. Hjúkrunarfræðingur sem einnig annaðist sjúklinginn greindist fyrir nokkru með ebólu og enn er allt á huldu hvernig hún smitaðist.
Í frétt BBC kemur fram að Nina Pham, sem greindist með ebólu í síðustu viku eftir að hafa annast Líberíumanninn Thomas Duncan er hann lá á sjúkrahúsi í Dallas, sé við þokkalega heilsu.
Fylgst er grannt með 48 manns sem komust í snertingu við Duncan, þar á meðal fjölskylda hans og þeir sem önnuðust hann á sjúkrahúsinu.
Ekki hefur verið upplýst um hver viðkomandi er sem nú hefur greinst með smit annað en að um heilbrigðisstarfsmann sé að ræða sem hafi komið að umönnun Duncans á sjúkrahúsinu.
Þegar viðkomandi fékk hita í gær var hann þegar settur í einangrun, samkvæmt tilkynningu frá yfirvöldum í Texas.
Alls eru 4.447 látnir úr ebólu frá því faraldurinn braust út, flestir í Vestur-Afríku.