List eða klám?

Ný sýning í Musée d'Orsay safninu í París hefur vakið upp spurningar um hvort verkin séu list eða klám?. Um er að ræða verk sem listamenn hafa unnið undir áhrifum Sade markgreifa. Gestir sýningarinnar eru varaðir við því hversu ofbeldisfullar sum verkin eru.

Donatien Alphonse François, sem er best þekktur sem Marquis de Sade (Sade markgreifi) var vel þekktur heimspekingur og rithöfundur og hafði gríðarlega áhrif á fjölmarga fræðimenn, listamenn ofl. í gegnum tíðina. Á sama tíma og sumir vart halda vatni yfir speki hans eru aðrir sem segja hann klámhund sem reyndi að réttlæta nauðganir, morð eða barnaníð. 

En hvað sem fólki finnst um þennan átjándu aldar fræðimann (Sade fæddist 1740 og lést 1814) þá hafði hann áhrifð víða allt frá Flaubert til Baudelaire.

Á sýningunni í París má sjá verk sem sýna nakið fólk sem engist sundur og saman af kvöl og ýmislegt fleira sem vart er prenthæft.

Musée d'Orsay safnið er eitt það vinsælasta í Evrópu og sýning þess í fyrra  Masculin/Masculin vakti heimsathygli. Á vef safnsins kemur fram að sýningin nú geti hneykslað einhverja gesti.

Eitt helsta verk Sade markgreifa er 120 dagar í Sódómu sem hann skrifaði árið 1785. þar er fjallað um siðspillingu, morð og barnaníð. Bókina ritaði Sade, (en sadismi, eða kvalalosti er kennd við markgreifann), þegar hann var í haldi í Bastillu fangelsinu í París. Þar lýsir hann kynlífsorgíum fjögurra auðugra siðlausra Frakka sem nauðga, pynta og að lokum myrða fórnarlömb sín á unglingsaldri.

 Annie Le Brun, annar þeirra sem stýrir sýningunni en hún er sérfræðingur í Sade, segir að verk Sade snúist um girnd og grimmd eitthvað sem að sögn Sade sé innbyggt inn í mannlegt eðli.

Le Brun og Laurence des Cars, sem setur upp sýninguna með henni, segja að Sade hafi haft áhrif á listamenn og hvatt þá til að segja eitthvað annað en það sem er venjan þegar kemur að listaverkum. Nýjar áskoranir sem snúist meðal annars um frelsi mannsins og frelsið til að gera það sem maður vill. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert