Góðhjartaður maður sem stöðvaði bíl sinn til að hjálpa öðrum bílstjóra sem hafði lent í árekstri fékk ekki þau verklaun sem hann hafði búist við, en bílstjórinn sem hann kom til bjargar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá. Fréttastofa CBS greinir frá þessu.
Jack Taxis kom fyrstur að árekstri í Yorkville í Bandaríkjunum á miðvikudag þegar hann var á leið í vinnu. Hann hringdi í neyðarlínuna í kjölfarið, en þegar lögregla kom á staðinn sagði hann hegðun bílstjórans hafa umturnast.
Að sögn lögreglu varð maðurinn ofbeldishneigður sem gerði það að verkum að lögreglumenn þurftu að beita rafbyssu (e. taser) til að yfirbuga hann. Þegar það tókst ekki hugðist maðurinn stinga af í bíl Taxis. Ekki fór betur en svo að hann keyrði á rafmagnsstaur og velti bíl Taxis. „Ég varð mjög reiður því bíllinn var barnið mitt,“ sagði Taxis.
Manninum var komið á spítala í lífshættu og var rafmagnslaust á svæðinu í fjórar klukkustundir eftir atvikið.
Þrátt fyrir þetta segir Taxis að hann vonist til þess að maðurinn jafni sig. Þá segir hann að þrátt fyrir að nýi bílinn hans hafi gjöreyðilagst, myndi hann gera þetta aftur. „Ef eitthvað myndi koma fyrir mig þá myndi ég vilja að einhver hjálpaði mér,“ segir hann.
Sagan varð þó enn furðulegri þegar í ljós kom að Taxis var á leið til vinnu sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu þangað sem bílstjórinn var fluttur.