Óbreyttir borgarar eru til allrar hamingju lítið fyrir það að drepa annað fólk, svona yfirleitt. Trú, siðferðisleg gildi og lög mæla gegn slíku athæfi. En hversu friðsamleg og miskunnsöm erum við? Fræ grimmdarinnar virðast blunda í okkur öllum. Í frægri sálfræðitilraun Stanleys Milgrams á sjöunda áratugnum sást að hægt væri að fá a.m.k. þriðjung þátttakenda í tilrauninni til að veita fórnarlambi banvænan rafstraum. Eina sem þurfti til að brjóta niður siðmenningarmúrinn var að ábúðarmikill maður í hvítum sloppi segði þátttakendum fyrir verkum.
Margir yfirmenn herja hafa lengi haft áhyggjur af því að liðsmenn í fremstu víglínu væru ekki nógu árásargjarnir. Þess vegna þyrfti að innræta þeim meiri drápsfíkn í herþjálfuninni, berja „mömmustrákinn“ úr nýliðum. Með öðrum orðum, fá þá til að slökkva á siðmenningarbjöllunum í hjarta og huga þegar út á vígvöllinn væri komið. Þetta er nú víða gert í herþjálfun.
Hernaður er eitt, hrottaskapur Íslamska ríkisins, IS, á sér vart líka og meðferð þeirra á óbreyttum borgurum úr trúarfylkingum sem IS líkar ekki við er ólýsanleg. Þúsundir ungra karla (og allmargra kvenna) hafa samt látið heillast af grimmdinni, látið sannfærast um að IS sé að berjast réttlátri baráttu fyrir íslam.
Engin mótrök duga. Margt af þessu fólki er að flestu leyti ofur venjulegt ungt fólk. Það kemur úr friðsömum vestrænum samfélögum en gleypir samt við hatursáróðri sem aðallega fer fram á netinu en einnig í sumum moskum. Hvernig er hægt að fá það til að fremja þessi grimmdarverk?
Lítið er í reynd vitað um aðferðirnar sem yfirmenn IS í Sýrlandi og Írak nota til að herða liðsmenn sína, gera þá miskunnarlausa. En ef til vill er hægt að fræðast af manni sem áður var þekktur sem blóðþyrstur stríðsherra í Afríku, nánar tiltekið í Líberíu. Joshua Milton Blahyi, sem nú hefur iðrast og reynir að bæta fyrir brot sín, var snillingur í að breyta 8-12 ára drengjum í ofbeldisseggi sem ekki hikuðu við að pynta og drepa, jafnt vopnað fólk sem aðra.
Breski blaðamaðurinn Mary Wakefield hitti Blahyi og segir frá samtalinu við hann í tímaritinu Spectator. Hann lýsti „tækninni“ og fullyrti að svipaðar aðferðir myndu virka þótt um aðeins eldra fólk væri að ræða, eins og ungmennin sem IS notar.
„Fyrst í stað fylgdu þeir mér af því að ég var valdamikill og sterkur og þeir vildu verða mikilvægir eins og ég,“ sagði Blahyi. Öllu skipti að þeir kæmu sjálfviljugir. Þá var hægt að fara að gera úr þeim skrímsli. Þeir fengu að horfa á ofbeldiskvikmyndir, helst Hollywood-myndir, til að sjá að dráp væri bara leikur. Síðan var þeim leyft að leika sér að byssum með púðurskotum, þykjast drepa.
„Við létum þá hafa hnífa til að stinga í lík. Í fyrstu finnst þeim það erfitt, þeir eru hræddir. Seinna stinga þeir aftur og aftur í líkin... Aftur og aftur. Eftir þetta eru þeir orðnir illmenni. Þeim finnst gott að drepa.“
Hlutverki stjórnandans var samt ekki lokið, að sögn Blahyis, menn mættu aldrei slaka á. Stöðugt yrði að auka ofbeldið og gefa strákunum eiturlyf, amfetamín og fleira. Þegar búið væri að kenna þeim að drepa yrðu þeir að læra að nauðga, pynta, afhöfða fólk. Gera yrði þá ónæma fyrir þjáningum annarra, tryggja að þeir væru hræddir við yfirmann sinn en líka hlýðnir. Og sumt sem þeir gerðu var að sögn Wakefield svo viðbjóðslegt að hún vildi ekki hafa það eftir Blahyi.
En hann bætti við: „Ef óvinir okkar halda að við séum brjálaðir sigrum við jafnvel áður en sjálfur bardaginn byrjar.“
Vitað er að fyrir 800 árum tókst lítilli þjóð í Mið-Asíu, Mongólum, á fáeinum áratugum að leggja undir sig sig nær alla Asíu og Rússland, lönd með nokkur hundruð sinnum fleiri íbúa en Mongólía. Gengis Khan og afkomendur hans hikuðu ekki við að láta drepa hvert mannsbarn í sumum borgum Kína, þannig sýndu þeir að engum yrði þyrmt ef mótspyrnu yrði vart.
Lýsingarnar á ofbeldinu og myndir af aftökum sem IS-menn senda öðru hverju frá sér gegna vafalaust sama hlutverki: að hræða menn frá því að reyna að berjast gegn þeim. Á undan liði IS fer annar her, sveitir ofsahræðslu við menn sem virðast hafa yfirgefið mannkynið.