Hitti Bubba og komst til heilsu

Gamli maðurinn með hundinn sinn, hann Bubba.
Gamli maðurinn með hundinn sinn, hann Bubba.

Veikur aldraður maður komst til heilsu á ný eftir að sjúkrahúsið sem hann dvaldi á í Kentucky beygði reglur og leyfði honum að hafa smáhundinn sinn hjá sér.

Hundurinn er af tegundinni chihuahua.

James Wathen er 73 ára. Hann var hættur að nærast og var svo veikur að hann gat varla hvíslað. Honum tókst þó að segja hjúkrunarfræðingunum að hann saknaði svo hundsins síns, hans Bubba.

Ekki var talið að Wathen ætti langt eftir og því ákvað sjúkrahúsið að leyfa honum að fá Bubba í heimsókn. 

„Einn félagsráðgjafi okkar sagði að söknuðurinn væri svo mikill að sjúklingurinn væri að verða veikari. Við fundum því hundinn,“ segir yfirhjúkrunarfræðingurinn, Kimberly Probus.

Bubba er líka gamall. Hann er eineygður og hálftannlaus. Hann var kominn á dýraathvarf því enginn nema gamli maðurinn gat hugsað um hann. Í frétt Telegraph um málið segir að í ljós hafi komið að Bubba saknaði líka eiganda síns sárt og var sjálfur hættur að éta. 

Það urðu því miklir fagnaðarfundir. Gamli maðurinn grét og Bubba ýlfraði af gleði.

Dýraathvarfið tók upp myndskeið af því þegar Bubba og Wathen hittust á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert