Bandaríkjaher varpaði vopnum, skotfærum og sjúkragögnum til Kúrda í Kobane í gær. Er þetta í fyrsta skipti sem Bandaríkjaher sendir íbúum Kobane vopn með þessum hætti og má búast við því að þetta veki litla hrifningu hjá tyrkneskum stjórnvöldum.
Það var C-130-herþota sem flaug með gögnin en vopnin eru ætluð Kúrdum sem berjast við sveitir Ríkis íslams um yfirráð í borginni.
Sveitir Ríkis íslams áttu fótum sínum fjör að launa í gær þegar stöðugar loftárásir voru gerðar á búðir þeirra. Alls gerðu Bandaríkjamenn ellefu loftárásir á Ríki íslam í nágrenni Kobane um helgina. Barist hefur verið um Kobane í meira en mánuð.