Breskum stjórnvöldum hefur verið gert að greiða 1,7 milljarða punda, 330 milljarða króna, til viðbótar til Evrópusambandsins þar sem staða efnahagsmála er betri en áður var talið.
Heimildir BBC innan úr breska stjórnkerfinu herma að ríkisstjórn Bretlands telji þetta algjörlega óviðunandi.
Þetta er niðurstaða ESB eftir að nýir útreikningar voru birtir sem sýna hvað hvert aðildarríki á að greiða en greiðslan byggist á vergum þjóðartekjum. Þetta þýðir að Bretland þarf að greiða um 20% ofan á þá 8,6 milljarða punda sem breska ríkið greiðir árlega.
Þetta kemur fram á sama tíma og gríðarlegur þrýstingur er á David Cameron forsætisráðherra varðandi Evrópusambandið. Hann er nú í Brussel á fundi með leiðtogum annarra ríkja ESB.
Heimildir BBC herma að bresk stjórnvöld telji það með öllu óviðunandi að ESB komi með þessa kröfu nú fyrir fyrri ár. Framkvæmdastjórnin hafi ekki átt von á þessum peningum og þurfi ekki á þeim að halda.