Maður sem starfar í sendiráði Sádi-Arabíu í París varð fyrir því óláni er hann skrapp í mat í vikunni að 15 þúsund evrum, 2,3 milljónum króna, í reiðufé var stolið af honum. Nokkrir landar hans hafa einnig orðið fyrir barðinu á þjófum í París að undanförnu.
Sádinn, sem starfar í menningardeild sendiráðsins, var að borða á Victor Hugo-torgi í 16. hverfi síðdegis á þriðjudag. Þegar hann stóð upp og ætlaði að yfirgefa staðinn um fjögurleytið uppgötvaði hann að tösku hans hafði verið stolið en alls voru 15 þúsund evrur í peningum í töskunni auk persónulegra muna. Lögregla rannsakar þjófnaðinn, samkvæmt frétt Le Parisien.
En hann er ekki eini Sádinn sem hefur orðið fyrir barðinu á þjófum í París að undanförnu því frænka konungsins varð fyrir því óláni fyrir nokkrum dögum að gleyma tveimur pokum í bíl sínum í París en í þeim voru alls 25 þúsund evrur í seðlum og var báðum pokunum stolið úr bílnum.
Eins varð Sádi á rafskutlu fyrir því í París í ágúst að vopnaður maður stöðvaði för hans og stal af honum 250 þúsund evrum í reiðufé og einhverjum mikilvægum skjölum.