Kona frá Montana í Bandaríkjunum sem dæmd var fyrir að myrða eiginmann sinn með því að ýta honum fram af kletti, aðeins 8 dögum eftir að þau giftu sig, hefur áfrýjað dómnum.
Jordan Linn Graham, sem er 23 ára gömul, var í mars dæmd í 30 ára fangelsi fyrir að hafa ýtt eiginmanni sínum fram af kletti í júlí í fyrra með þeim afleiðingum að hann lét lífið.
Verjendur Graham hafa haldið því fram að saksóknarar hafi haldið sönnunargögnum fyrir sig til að sannfæra dóminn um það að Graham hafi skipulagt verknaðinn. Graham var fundin sek um morð af annarri gráðu, en dómari neitaði beiðni hennar um að taka játninguna til baka.
„Þetta gerðist skyndilega, ég vildi bara losna við hann frá mér,“ sagði Graham. „Mér líður ekki eins og ég hafi drepið hann; ég meina, ég hrinti honum en þetta var slys.“
Hjónavígslan fór fram 29. júní í fyrra og strax í kjölfar hennar viðraði Graham efasemdir sínar um giftinguna við fjölskyldu sína og vini. Hjónakornin fóru engu að síður í gönguferð um Glacier-þjóðgarðinn í Montanaríki 7. júlí. Fyrir dómi viðurkenndi Graham að hafa ýtt eiginmanni sínum, Cody Lee Johnson, fram af klettabrún. Johnson féll 90 metra.
Lík mannsins fannst ekki fyrr en 12. júlí en Graham neitaði í upphafi að hafa komið að hvarfi hans og sagði hann hafa farið með félögum sínum.