„Baráttan gegn atvinnuleysinu er töpuð“

Francois Rebsamen, atvinnuvegaráðherra Frakklands.
Francois Rebsamen, atvinnuvegaráðherra Frakklands. AFP

Atvinnulausum í Frakklandi fjölgaði um 19.200 í síðasta mánuði og eru þeir nú alls 3,43 milljónir. Atvinnuvegaráðherra Frakklands, François Rebsamen, sagði í viðtali við Le Parisien nú um helgina, að baráttan gegn atvinnuleysinu væri í raun og veru töpuð. 

Rebsamen viðurkenndi að ríkisstjórnin hefði mátt fara aðrar leiðir til þess að minnka atvinnuleysi. Hann segir einnig að ríkisstjórnin hefði mátt útskýra betur fyrir þjóðinni hversu lélegt efnahagsástandið í landinu væri í raun og veru. 

„Ástandið í atvinnumálum mun ekkert batna á komandi mánuðum. Ef það á að gerast þurfum við hagvöxt.“

Atvinnuleysið minnkaði örlítið í landinu í ágúst og veitti það mönnum töluverða bjartsýni. Það tímabil entist ekki lengi og nú jókst atvinnuleysið á nýjan leik, í öllum hópum samfélagsins. Sérstaklega er unga fólkið í vandræðum með að finna sér vinnu. 

Rebsamen lýsti næstu skrefum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Mun ríkið niðurgreiða 50 þúsund vinnusambandssamninga, þar af 15 þúsund fyrir fólk undir 25 ára aldri. Greiningardeildir í Frakklandi telja kostnaðinn við þetta verða um 200 milljónir evra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert