Öryggisgæsla í kringum forsætisráðherra Breta, David Cameron, þykir hafa brugðist illa í dag. Cameron var að koma út úr byggingu í Leeds í Englandi þar sem hann hafði haldið ræðu þegar ungur karlmaður komst framhjá lífvörðum Cameron og hljóp alveg upp að honum.
Í yfirlýsingu frá breskum lögregluyfirvöldum segir að hinn 28 ára karlmaður hafi verið yfirbugaður og handtekinn en að honum hafi verið sleppt síðar um daginn. Samkvæmt tilkynningunni mun teymið sem ber ábyrgð á öryggi Cameron fara yfir atvikið og hvernig maðurinn komst svo nálægt forsætisráðherranum. Í tísti frá lögreglunni var tekið fram að manninum virðist ekki hafa gengið neitt slæmt til og að hann hafi hreinlega verið á röngum stað á röngum tíma.
Í samtali við BBC sagðist maðurinn hafa verið að skokka í ræktina þegar hann hljóp beint í flasið á forsætisráðherranum. „Ég vissi ekki að það hefði verið David Cameron fyrr en þeir slepptu mér úr lögreglubílnum klukkutíma seinna og sögðu mér hvað ég hefði í raun gert.“
Atvikið má sjá í myndbandinu hér að neðan.