Orrustuþotur Spánverja í lamasessi

Eurofighter Typhoon.
Eurofighter Typhoon. AFP

Einungis örfáar orrustuþotur Spánverjar af gerðinni Eurofighter Typhoon eru í flughæfu ástandi. Þetta herma hermildir spænska dagblaðsins El Confidencial Digital en þoturnar eru þær nýjustu í flugflota Spánar. Fyrir vikið hefur þurft að dusta rykið af F-18 orrustuþotum sem til hafi staðið að taka úr notkun til þess að standa undir skuldbindingum landsins á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Fram kemur í fréttinni að ástæðan séu meðal annars tíðar bilanir í Eurofighter Typhoon orrustuþotunum og skortur á varahlutum. Þá sé ítrekað frestað því að láta flugvirkja ástandsskoða þoturnar. Einungi sex slíkar orrustuþotur eru fyrir vikið í flughæfu ástandi til þess að vakta lofthelgi Spánar. Ekki er hægt að grípa til annarra þotna sömu tegundar af fyrrnefndum ástæðum.

Ennfremur segir í fréttinni að Þjóðverjar hafi nýverið tilkynnt um framleiðslugalla í Eurofighter Typhoon orrustuþotum sem gæti komið niður á stöðugleika þeirra í flugi. Fyrir vikið var fyrirskipað að allar slíkar þotur þýska flughersins yrðu á jörðu niðri þar til rannsókn hefði farið fram. Spánverjar hafi hins vegar ákveðið að láta aðeins fara fram ástandsskoðun á sínum þotum.

Eurofighter Typhoon orrustuþotan var samstarfsverkefni Bretlands, Spánar, Þýskalands og Ítalíu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert