Mikli hvellur verk Guðs

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Kenningin um Mikla hvell samrýmist kenningum kaþólsku kirkjunnar um sköpun heimsins og hægt er að trúa hvoru tveggja. Þetta sagði Frans páfi á fundi með vísindaakademíu Páfagarðs á dögunum. Hann sagði Guð hafa staðið á bak við Mikla hvell.

Frans páfi sagði að kenningin um að mikil sprenging hefði orðið fyrir 13,7 milljörðum ára og síðan hefði heimurinn stækkað og þróast stangaðist ekki á við aðkomu guðlegs skapara heldur þýddi þvert á móti að hún hlyti að hafa átt sér stað. Þannig hefði upphaf heimsins ekki verið tilviljanakennt heldur hluti af áætlun Guðs.

Þá sagði páfinn að náttúruleg þróun færi ekki heldur gegn hugmyndum um skapara enda þyrfti fyrst að skapa lífverur svo þær gætu þróast. Þegar Biblían væri lesin væri hætta á því að fólk ímyndaði sér Guð sem einhvers konar töframann sem sveiflaði töfrasprota. Það væri hins vegar ekki raunin.

Fram kemur í fréttinni að fyrri páfar hafi talað á hliðstæðum nótum allt frá árinu 1950. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert