Tæplega einn af hverjum fimm breskum kjósendum styður Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ComRes gerði dagana 24.-26. október. Flokkurinn berst einkum fyrir því að Bretland segi skilið við Evrópusambandið.
Fram kemur í frétt Bloomberg að Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn mælist báðir með 30% fylgi samkvæmt könnuninni en Breski sjálfstæðisflokkurinn með 19%. Samkvæmt fréttinni segjast 19% þeirra sem kusu íhaldsmenn í síðustu þingkosningum ætla að kjósa Breska sjálfstæðisflokkinn og 10% fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins. Þingkosningar fara fram í Bretlandi á næsta ári en aukið fylgi Breska sjálfstæðisflokksins er einkum rakið til kröfu Evrópusambandsins nýverið um að Bretar greiddu meira í sjóði sambandsins en áður.
Skoðanakönnunin bendir ennfremur til þess að Mark Reckless sigri í aukakosningum í kjördæminu Rochester and Strood. Reckless var áður þingmaður Íhaldsflokksins en sagði af sér þingmennsku og gekk til liðs við Breska sjálfstæðisflokkinn. Kosningarnar fara fram í næsta mánuði og sigri Reckless verður hann annar kjörni fulltrúi flokksins á breska þinginu.
Könnunin var gerð dagana 24.-26. október og var úrtakið 1.002 einstaklingar.