Flest fólk veður í villu og svima þegar kemur að tölunum á bak við fréttirnar, allavega ef marka má tölur sem The Guardian birti í dag.
Í könnun var fólk í 14 löndum spurt ýmissa spurninga, til dæmis um samsetningu íbúafjölda síns lands með tilliti til trúar og hvert hlutfall innflytjenda væri.
Niðurstöðurnar voru í flestum tilvikum þær að fólk virðist stórlega ofmeta fjölda innflytjenda, vanmeta hversu margir aðhyllast kristni, auk þess sem flestir virðast telja múslima mun fleiri múslima í sínum löndum en raun ber vitni.
Einnig var spurt um hlutfall atvinnulausra, hversu margar stúlkur á aldrinum 15 til 19 ára eignast börn og ýmislegt fleira.
Fólk í hinum ýmsu löndum virðist hins vegar hafa mismunandi viðhorf til þeirra talna sem leiddar eru í ljós. Þannig ofmeta bæði Bretar og Þjóðverjar fjölda innflytjenda um 10 prósentustig.
Samkvæmt frétt The Guardian virðast 64% Breta líta á innflytjendur sem vandamál en 29% sem tækifæri til sóknar. Í Þýskalandi er tölunum algjörlega snúið við, þar sem 32% telja innflytjendur vandamál en 62% telja að aukinn straumur innflytjenda til landsins feli í sér tækifæri.