Fordæmir forstjóra Apple fyrir samkynhneigð

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP

Vitaly Milonov, sem stóð á bak við lög gegn samkynhneigð í Rússlandi fyrr í árinu, hefur nú fordæmt forstjóra Apple, Tim Cook, en hann kom út úr skápnum í gær. Hefur hann kallað eftir því að Cook verði bannað að koma til Rússlands. 

„Þetta er pólitísk aðgerð til þess að gera samkynhneigð vinsæla,“ sagði Milonov í samtali við AFP í dag. Hann situr á þingi fyrir þingflokkinn „Sameinað Rússland“ í St. Pétursborg. 

„Mér finnst að hann ætti að vera bannaður hér í landi. Það er augljóst að hann vill þröngva upp á fólk sínum hugmyndum um fjölskyldur, ekki bara kynna ný tæki,“ bætti hann við.

Hann sagðist þó ekki ætla að hætta að nota iPhone-símann sinn sem framleiddur er hjá Apple. „Þetta er ekki símanum að kenna,“ sagði hann.

Það vakti heimsathygli fyrr á árinu þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti skrifaði undir lög sem bönnuðu „áróður“ samkynhneigðra gagnvart ólögráða einstaklingum. 

Viðhorf rússneskra yfirvalda til samkynhneigðar hafa lengi verið gagnrýnd. Það var til að mynda ekki fyrr en árið 1993 sem samkynhneigð hætti að flokkast sem glæpur í Rússlandi. Og það var ekki fyrr en árið 1999 sem það hætti að flokkast sem geðsjúkdómur. 

Forstjóri Apple kominn út úr skápnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka