Stúlkurnar hafa verið giftar

Skjáskot úr myndbandinu sem Boko Haram sendu fjölmiðlum.
Skjáskot úr myndbandinu sem Boko Haram sendu fjölmiðlum. AFP

Nígerísku hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa sent frá sér myndband þar sem þeir neita að hafa samþykkt vopnahlé og segja staðhæfingar nígerískra yfirvalda um slíkt lygar.

Í myndbandinu segir leiðtogi hópsins, Abubakar Shekau, einnig að skólastúlkunum 219, sem samtökin rændu í apríl, hafi  verið snúið til íslamskrar trúar og þær giftar.

Þá segir hann að hópurinn hafi haldið þýskum manni föngnum síðan í júlí.

Myndbandið fylgir í kjölfar tilkynningu nígersíska hersins um að samkomulag um vopnahlé hafi náðst. Aðstoðamaður forseta Nígeríu, Goodluck Jonathan, sagði þá einnig að samningar um frelsun stúlknanna hefðu náðst en mannránið vakti mikla reiði víða um heim.

Fullyrðingarnar þóttu nokkuð ósannfærandi. Ekkert hefur dregið úr ofbeldi og mannránum frá yfirlýsingum yfirvalda en sem dæmi má nefna að þrefölt sprenging á rútustöð í borginni Gombe varð í dag átta manns að bana.

Yfirvöld halda því fram að enn eigi sér stað friðarviðræður en Shekau segir að Boko Haram hafi ekki samið um vopnahlé við einn né neinn.

„Við sömdum ekki við neinn. Það er lygi. Það er lygi. Við  munum ekki semja. Hvers vegna ættum við að semja?Allah sagði að við ættum ekki að gera það.“

Í skýrslu Human Rights Watch sem birtist í vikunni segir að Boko Haram haldi meira en 500 konum og ungum stúlkum föngnum og að algengt væri að stúlkur væru neyddar í hjónaband í herbúðum þeirra. Ekki er vitað hver þýski fanginn er en hann er sagður hafa verið kennari í bænum Gombi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert