Ný forsetafrú Afganistans, Rula Ghani, hefur lýst yfir stuðningi við umdeilt slæðubann í Frakklandi og er staðráðin í því að beita sér fyrir aukinni virðingu fyrir konum í afganska karlaveldinu.
Rula Ghani er 66 ára heimsborgari og olli miklu uppnámi í Afganistan með því að koma fram á framboðsfundum eiginmanns síns fyrir kosningar 21. september þegar hann var kjörinn forseti landsins. Mjög sjaldgæft er að eiginkonur afganskra stjórnmálamanna séu með þeim í sviðsljósinu og Ghani er fyrsta forsetafrúin í Afganistan sem lætur mikið að sér kveða í þjóðmálunum.
Rula Ghani er komin af kristnu fólki í Líbanon og Bandaríkjunum, talar fimm tungumál og stundaði m.a. nám í háskólanum Sciences Po í París seint á sjöunda áratug aldarinnar sem leið.
Ghani segist hafa stutt umdeild lög sem sett voru í Frakklandi árið 2011 um bann við því að hylja andlit sitt með slæðu. Margir múslímar mótmæltu banninu og lýstu því sem atlögu að trúfrelsi. „Ég styð ríkisstjórnina í Frakklandi heils hugar hvað varðar lögin um bann við niqab [blæju sem hylur andlitið upp að augum] og búrkum [flíkum sem hylja allan líkamann nema augun] sem torvelda konum að hreyfa sig frjálst og óhindrað og byrgja þeim sýn,“ sagði Ghani í viðtali við fréttaveituna AFP.
Ghani er með sterkar skoðanir og óhrædd við að láta þær í ljósi opinberlega. Hún hefur þegar látið meira að sér kveða en Zeenat Karzai, fyrrverandi forsetafrú, sem var nánast ósýnileg á þrettán ára valdatíma eiginmanns síns, Hamids.
Hamid Karzai komst til valda eftir að fjölþjóðaher undir forystu Bandaríkjanna steypti íslamskri stjórn talibana af stóli. Talibanar voru alræmdir fyrir kúgun á konum, bönnuðu þeim til að mynda að vera úti við án þess að vera í fylgd karlmanns.
Ghani segist ekki enn hafa gert það upp við sig hvaða hlutverki hún ætli að gegna sem forsetafrú, en kveðst vona að þegar kjörtímabili eiginmannsins lýkur verði „karlmenn í Afganistan fúsari til að viðurkenna það hlutverk sem eiginkonur þeirra vilja gegna“.
„Í stuttu máli vil ég að konur njóti meiri virðingar,“ segir Ghani.
Eiginmaður hennar hefur stutt hana í þessari viðleitni og fór lofsamlegum orðum um starf hennar í þágu flóttafólks, kvenna og barna í ræðu sem hann flutti 29. september þegar hann tók við forsetaembættinu.
Ghani nam við háskóla í Líbanon og Bandaríkjunum, auk Frakklands. Hún kynntist eiginmanni sínum í Líbanon og þau dvöldu hjá foreldrum hans í Kabúl í þrjú ár á áttunda áratugnum þegar eiginmaður hennar var háskólakennari í afgönsku höfuðborginni. Þau héldu síðan til Bandaríkjanna þar sem eiginmaður hennar lauk doktorsnámi við Columbia-háskóla og varð seinna hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum. Á þeim tíma gerði her Sovétríkjanna innrás í heimaland þeirra.
Ghani segist njóta góðs af þessum fjölbreytilega bakgrunni sínum þótt andstæðingar forsetans hafi gagnrýnt hana í kosningabaráttunni, einkum fyrir að vera kristin í landi þar sem múslímar eru í miklum meirihluta.
Ghani sneri aftur til Kabúl með eiginmanni sínum árið 2002 þegar hann varð fjármálaráðherra Afganistans. Hún segist vera mikill Frakklandsvinur eftir margra ára dvöl sína þar. Hún var í París þegar námsmannamótmælin hófust þar árið 1968 og segist þá hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þess að standa fast á skoðunum sínum. Hún var einnig fréttaritari frönsku fréttastofunnar Agence France-Presse í Beirút í tvö ár.