Dómstóll í Teheran hefur dæmt bresk-íranska konu í ársfangelsi eftir að hún reyndi að komast inn á blakleik. Dómurinn hefur mætt mikilli gagnrýni.
Hin 25 ára Ghoncheh Ghavami er lögfræðingur og búsett í London. Málið hefur vakið mikla athygli vegna tvöfalds ríkisfangs hennar og vegna þess hversu lengi hún var dæmd í fangelsi.
Ghavami var handtekin 20. júní við Frelsisleikvanginn í Íran, þar sem íranska landsliðið átti að leika gegn því ítalska. Henni var sleppt fljótlega eftir að hún var handtekin, en handtekin aftur skömmu síðar.
Hún hefur verið í varðhaldi síðan, þar af að minnsta kosti 41 dag í einangrun. Réttarhöldin voru haldin fyrir luktum dyrum. „Samkvæmt niðurstöðu dómsins þarf hún að vera í heilt ár í fangelsi,“ sagði lögfræðingurinn hennar.
Engar skýringar hafa verið gefnar fyrir handtökunni og dómnum aðrar en þær að konan hafi gerst brotleg við lög sem eiga að vernda konur fyrir áreiti karlkyns íþróttaaðdáenda.