Börðu börn með rafmagnsköplum

Barn á hlaupum í Kobane í austurhluta Sýrlands.
Barn á hlaupum í Kobane í austurhluta Sýrlands. AFP

Vígamenn Ríkis íslams pyntuðu og misnotuðu kúrdísk börn sem þeir rændu fyrr á þessu ári, skammt frá landamærabænum Kobane. Börnin voru barin með slöngum og rafmagnsköplum, samkvæmt heimildum mannréttindasamtakanna Human Rights Watch

Samtökin komust að þessari niðurstöðu eftir viðtöl við nokkur börn sem voru á meðal þeirra 150 sem var rænt í lok maí. Börnin voru á leið heim eftir að hafa farið til Aleppo til að taka próf er þeim var rænt. Um 50 þeirra tókst að sleppa úr haldi mannræningjanna fljótlega en hinum var sleppt smám saman yfir langt tímabil, þeim síðustu í lok október.

„Frá því að uppreisnin í Sýrlandi hófst hafa börn þurft að þola pyntingar og annan hrylling. Fyrst af hendi manna Assads forseta og nú Ríkis íslams,“ segir Fred Abrahams hjá Human Rights Watch. „Þessi sönnunargögn um pyntingar Ríkis íslams og misnotkun þeirra á börnum undirstrika þá nauðsyn að enginn styðji hernaðarbrölt þeirra.“

Fjögur barnanna sögðu frá því í viðtölum að þeim hefði verið haldið í sýrlenska bænum Manbij. Þau segjast hafa orðið fyrir ítrekuðum misþyrmingum og hafi mannræningjarnir m.a. beitt slöngum og rafmagnsköplum við barsmíðarnar.

Drengir á aldrinum 14-16 ára segja að þeir sem áttu ættingja í röðum kúrdískra hermanna hafi fengið sérstaklega slæma meðferð. 

Þá reyndu mannræningjarnir að hafa áhrif á trúarskoðanir þeirra og sögðu börnunum er þeim var sleppt að þau hefðu lokið „trúarlegri þjálfun“ sinni.

Vígamenn Ríkis íslams hafa fangelsað hundruð Kúrda á þessu ári en samtökin freista þess að ná yfirráðum í héruðum í norður- og austurhluta Sýrlands.

Helst er barist í landamærabænum Kobane. Þar mætir Ríki íslams ekki aðeins herjum Kúrda heldur einnig Bandaríkjamanna og fleiri ríkja sem hafa tekið þátt í baráttunni gegn þeim, m.a. með loftárásum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka