Norðmenn óttast hryðjuverkaárás

Norska lögreglan að störfum.
Norska lögreglan að störfum. AFP

Norðmenn búa sig undir árás Ríkis íslams í landinu vegna aukinnar ógnar frá öfgahópnum að undanförnu.

„Á næstu tólf mánuðum er líklegt að Noregi verði hótað hryðjuverkaárás eða slík árás gerð,“ segir í uppfærðu áhættumati norsku leyniþjónustunnar, PST.

Yfirmaður PST, Benedicte Björnland, segir í samtali við TV2 að engar nákvæmar upplýsingar um hugsanlega árás liggi þó fyrir.

„En við höfum orðið vör við aukna ógn,“ sagði hún og vísaði m.a. til árása í Kanada og Ástralíu nýverið.

Í september boðaði Ríki íslams árásir á öll þau lönd sem tækju þátt í árásum Bandaríkjanna á vígamenn öfgahópsins í Írak og Sýrlandi.

Noregur tekur ekki beinan þátt í árásunum en tilkynnti í síðustu viku að 120 norskir hermenn verði sendir til Írak til að aðstoða við þjálfun hermanna í baráttunni gegn Ríki íslams.

Björnland segir að hætta sé m.a. talin á, víðs vegar um Evrópu, að árásum verði sérstaklega beint gegn þeim sem starfa innan hersins, lögreglu og stjórnmálamönnum.

Samkvæmt upplýsingum PST hafa sextíu manns með tengsl við Noreg farið til Sýrlands til að taka þátt í styrjöldinni þar í landi. 

Í sumar var sterklega varað við hryðjuverkum í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert