90 ára ákærður fyrir að gefa mat

Arnold Abbott er níutíu ára gamall og býr í Flórída.
Arnold Abbott er níutíu ára gamall og býr í Flórída. Skjáskot af vef CNN

Arnold Abbott er níutíu ára gamall og býr í Flórída í Bandaríkjunum. Hann hefur nú verið ákærður fyrir að gefa heimilislausum að borða á opinberum vettvangi.

Abbot býr í Fort Lauderdale og samkvæmt nýjum lögum í borginni er nú óheimilt að deila mat opinberlega. Abbot ásamt tveimur prestum fóru í almenningsgarð á sunnudaginn og ætluðu að gefa heimilislausum að borða. Þeir gætu nú farið í fangelsi og þurft að borga sekt fyrir það. Fréttastofan CNN greinir frá þessu.

Þegar lögreglu bar að garði var Abbot búinn að gefa fjóra diska af mat til fólks. „Lögreglumaðurinn sagði „*Niður með diskinn núna“ eins og ég væri vopnaður,“ sagði Abbott í samtali við fjölmiðla. 

Þrátt fyrir mikla gagnrýni frá ýmsum góðgerðarhópum hafa borgaryfirvöld sagt að lögunum verði ekki breytt. „Þó að lögin fái athygli í fjölmiðlum munum við ekki hætta að beita þeim. Við munum framfylgja þeim hér í Fort Lauderdale,“ sagði borgarstjórinn Jack Seiler í samtali við fréttastofuna WPLG.

Varði hann lögin jafnframt í viðtali við dagblaðið Sun-Sentinel.

„Ég er ekki ánægður með að það sé hópur heimilislausra í borginni. Með því að gefa þeim að borða haldast þau á götunni og það er ekki gott.“

Abbott hefur hjálpað til við að gefa heimilislausum að borða frá árinu 1991 og hefur sagt að með lögunum séu yfirvöld að ráðast á viðkvæmustu íbúa borgarinnar. 

„Þetta eru fátækustu meðal þeirra fátæku. Þau eiga ekkert. Þau eiga ekki þak yfir höfuðið. Hver getur neitað þeim um hjálp?“ sagði Abbott. 

Abbott hefur áður komist í kast við lögin fyrir að gefa heimilislausum að borða en það var árið 1999. Þá kærði hann borgina fyrir að banna honum að gefa heimilislausum að borða á ströndinni. Hann vann það mál og sagðist ætla að halda áfram að gefa mat.

„Ég er ekki hræddur við fangelsi. Ég hlakka ekki til að fara en ef ég þarf þess mun ég fara.“ 

Hér sjást lögreglumenn stöðva Abbott við matargjöfina á sunnudaginn.
Hér sjást lögreglumenn stöðva Abbott við matargjöfina á sunnudaginn. Skjáskot af vef CNN
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert