Lúxemborg sagt skattaskjól

Lúxemborg er sakað um að vera skattaskjól alþjóðlegra stórfyrirtækja.
Lúxemborg er sakað um að vera skattaskjól alþjóðlegra stórfyrirtækja. AFP

Yfirvöld í Lúxemborg hafa gert alþjóðlegum stórfyrirtækjum kleift að víkja sér undan því að greiða milljarða dollara skatta og falið spor þeirra. Þetta er niðurstaða rannsóknar fleiri en áttatíu blaðamanna í 27 löndum sem eiga aðild að alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna á þúsundum gagna sem var lekið.  Kaupþing er eitt fyrirtækjanna sem nefnt er.

Blaðamennirnir hafa undanfarna sex mánuði legið yfir um 28.000 blaðsíðum um skattasamkomulögum, skattskýrslum og öðrum viðkvæmum upplýsingum. Þau varða fleiri en þúsund fyrirtæki en flest gagnana komu frá endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers í Lúxemborg en það er eitt stærsta skattaráðgjafarfyrirtæki heims. Gögnin sýna hvernig yfirvöld í Lúxemborg hafa starfað sem milliliður í skattsvikum sem eiga sér stað utan landamæra örríkisins, að því er kemur fram í breska blaðinu The Guardian.

Á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa notfært sér Lúxemborg til að lækka skattgreiðslur sínar eru Pepsi,  Ikea, Burberry, Heinz, JP Morgan og Fedex. 

Eitt af skjölunum varðar skattaúrskurð sem varðaði Kaupþing árið 2009.

Vaxandi þungi hefur verið í umræðum á vesturlöndum um að stjórnvöld komi í veg fyrir alþjóðlega stórfyrirtæki nýti sér alþjóðleg skattalög til að minnka skattgreiðslur sínar. Þannig hefur David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagt að sérstaklega þurfi að stemma stigu við því að fyrirtækin finni glufur í skattkerfum með aðstoð hers færra endurskoðenda.

Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og núverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur neitað því að Lúxemborg sé skattaskjól. Þrátt fyrir það beinast að minnsta kost tvær rannsóknir nú að því hvort að þarlend yfirvöld hafi aðstoðað Amazon og ítalska bílaframleiðandann Fiat við að koma sér undan sköttum.

Frétt The Guardian af málinu

Skjalið um Kaupþing (á frönsku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert