Nýr formaður orkumálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, Lisa Murkowski, gerði eldgosið í Holuhrauni að umræðuefni í kosningaveislu á þriðjudagskvöldið. Svo virðist sem hún hafi misskilið hversu mikil mengunin frá gosinu er.
Murkowski er þingmaður Repúblikanaflokksins í Alaska og var meðal ræðumanna á Artic Circle ráðstefnunni hér á landi um síðustu helgi.
Repúblikanar fögnuðu sigri í Alaska á þriðjudagskvöldið og verður Murkowski formaður olíumálanefndarinnar. Í frétt á vef NPR kemur fram að það sé fagnaðarefni fyrir Alsaka sem hefur viljað fá auknar heimildir til olíuleitar í ríkinu.
Murkowski sagði í kosningaveislunni taka hlýnun loftlags alvarlega. Hún komi frá ríki þar sem hlýnunin fer ekki fram hjá neinum. Fréttamaður NPR veltir fyrir sér hversu djúpt þekking hennar á loftlagsmálum risti og nefnir það sem hún sagði um mengunina frá eldgosinu í Holuhrauni. Mengunin frá eldgosinu jafnist á við alla þá mengun sem komi frá bílum framleiddum í Evrópu á þúsund árum.
„Hvað get ég sagt,“ segir Michael Oppenheimer, prófessor við Princeton háskóla í samtali við NPR vegna þessara ummæla en hann er einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í loftlagsmálum. „Þetta er einfaldlega ósatt. Ég veit ekki hvaðan hún fær þessar upplýsingar.“