Verður yngsti þingmaður Bandaríkjanna

Saira Blair
Saira Blair Skjáskot af http://www.blairforwv.com/

Eftir þingkosningarnar í Bandaríkjunum á þriðjudaginn varð repúblikaninn Saira Blair, 18 ára nemandi við West Virgina University, kjörin inn á fulltrúaþing  vestur-Virginíu og verður hún yngsti þingmaðurinn í sögu Bandaríkjanna.

Hún er á þriðja ári í námi sínu í hagfræði og spænsku og segist ætla að fresta námi sínu tímabundið eftir áramót til þess að sinna þingsstörfum. 

Blair komst fyrst í fréttirnar í vor þegar hún náði að sigra 67 ára gamlan embættismann í prófkjöri repúblikana. Þá var hún aðeins 17 ára gömul. Nú er hún þó orðin 18 ára og er því nógu gömul til þess að starfa sem fulltrúi á þingi. Faðir hennar er öldungadeildarþingmaðurinn Craig Blair.

Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gömul er Blair mjög íhaldssöm. Bæði er hún á móti fóstureyðingum og hjónabandi samkynhneigðra og er fylgjandi almennri byssueign. 

Blair segist vilja starfa sem fjármálaráðgjafi eftir að hún útskrifast úr háskóla. Í viðtali við tímaritið Time sagðist Blair helst vilja berjast fyrir auknu atvinnuframboði í Vestur Virginíu. 

„Ég ólst upp með föður sem var stjórnmálamaður. Ég hef alltaf vitað að þetta er eitthvað sem ég myndi hafa áhuga á einn daginn. Ég vissi samt ekki að ég myndi gera þetta svona ung,“ sagði hún m.a. í viðtalinu. 

Hún segir að val hennar að fara í framboð hafi komið foreldrum hennar á óvart. „Þau héldu að ég væri klikkuð fyrir að vilja þetta því þau vita hvernig lífstíllinn er og hvað þetta er mikil vinna. En þau hafa stutt mig þrátt fyrir það og hjálpað mér alveg gífurlega.“

Blair segir að það hafi ekki verið of mikið mál að standa í kosningabaráttu á sama tíma og hún stundaði nám. Náði hún að halda góðri meðaleinkunn og vann ýmis störf í aðdraganda kosninganna að mestu leyti í herbergi sínu á skólavistinni. 

„Ég fór í tíma á morgnanna og eftir hádegi fór ég inn í herbergið mitt og handskrifaði bréf til næstum því 4000 kjósenda,“ segir Blair.

Hún segir jafnframt að vinir hennar í skólanum hafi hjálpað henni mikið. „Þau urðu svo spennt að sjá einhvern á  þeirra aldri í framboði að þau hafa hjálpað mér mikið. Þau hafa haldið á skiltum með stuðningi og hjálpað mér að setja bréf í umslög. Ég hefði ekki getað gert þetta án þeirra.“

Blair segist vera nokkuð eðlilegur háskólanemi. Hún er í nemendaráði en hefur einnig prófað hin ýmsu félög eins og prjónaklúbb, föndurklúbb og matreiðsluklúbb. „Mér og vinum mínum finnst gaman að fara út að borða. Við fundum um daginn nýjan taílenskan veitingastað sem við vorum mjög hrifin af.“

Aðspurð hvaða málefni eru henni helst í huga við þingstörfin segir hún að það verði að skapa frekar atvinnutækifæri í Vestur Virginíu. „Ég hef séð of marga klára menntaskóla og háskóla en þurfa síðan að flytja úr fylkinu því þeir fá ekki nógu vel launað starf.“

Blair er áhugamanneskja um byssur og byssueign.
Blair er áhugamanneskja um byssur og byssueign. Skjáskot af http://www.blairforwv.com/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert