Hætti ef atvinnuleysi dregst ekki saman

François Hollande, forseti Frakklands kom fram í þætti á TF1 …
François Hollande, forseti Frakklands kom fram í þætti á TF1 í gærkvöldi þar sem hann svaraði spurningum blaðamanna og fulltrúum viðskiptalífsins. AFP

François Hollande, forseti Frakklands, segir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri árið 2017 ef honum tekst ekki að draga úr atvinnuleysi í landinu. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við forsetann. Þar viðurkennir hann að hafa gert mistök í starfi frá því hann tók við embætti forseta árið 2012. 

Með viðtalinu er talið að Hollande sé að reyna að endurheimta vinsældir sínar, að því er fram kemur á vef BBC. En í gær var birt skoðanakönnun sem sýndi að Hollande er með 12% fylgi og hefur aldrei verið jafn lítið. 

Atvinnuleysi í Frakklandi er um 11% og hagvöxtur hefur nánast stöðvast í landinu. Á sama tíma og fylgið hrynur af forsetanum þá eykst stuðningur við leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, sífellt.

„Ég er með þykkan skráp. Í tvö og hálft ár hef ég þraukað,“ sagði Hollande í viðtalinu. „Ég hef gert mistök en hver hefur ekki gert mistök?,“ sagði hann ennfremur.

Þegar Hollande var spurður út í fyrri loforð um að snúa þróun atvinnuleysis við í betri átt svaraði hann: „Heldur þú að ég geti sagt frönsku þjóðinni að mér hafi ekki tekist að gera þetta á fimm árum en ég lofa því að mér tekst það á næstu fimm árum. Þetta virkar  ekki þannig,“ sagði Hollande.

„Ef mér tekst þetta ekki áður en kjörtímabili mínu lýkur heldur þú að ég muni fara fram fyrir frönsku þjóðina 2017? Franska þjóðin yrði ósátt við það og það væri rætt af henni.“

Hollande ýjaði hins vegar að því að honum myndi takast að ljúka við endurskipulagningu efnahagslífsins áður en kjörtímabilinu lýkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert