Hver var það eiginlega sem drap Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna þann 2. maí 2011? Mikil leynd hefur hvílt yfir því hver skaut hann náðarskotinu en nú keppast bandarískir sérsveitarmenn um að lýsa yfir ábyrgð á drápinu.
Í ítarlegu viðtali við Washington Post lýsir Robert O’Neill, 38 ára, fyrrverandi liðsmaður sérsveitar Bandaríkjahers (SEAL) því að hann væri maðurinn sem skaut bin Laden tveimur skotum úr launsátri í Pakistan fyrir þremur og hálfu ári.
Daginn áður hafði verið upplýst um að O'Neill hafi drepið bin Laden á vefnum SOFREP en þar er sjónum beint að sérstökum aðgerðum á vegum bandarískra yfirvalda. Saga O’Neill verður einnig sögð í heimildarmynd á Fox sjónvarpsstöðinni í næstu viku. En eins birtist viðtal við O'Neill, án þess að hann væri nafngreindur, í tímaritinu Esquire fyrir tveimur árum þar sem hann lýsti atburðarrásinni umræddan dag.
Í Esquire er haft eftir O'Neill að sérsveitarmaðurinn sem fór fremstur hafi fyrst séð bin Laden og hleypt af án þess að hæfa. Þá hafi hann, O’Neill, skotið tveimur skotum í höfuð bin Ladens.
Einn fyrrverandi liðsmaður SEAL greindi frá því í gær að sá sem fór fyrstur hafi hæft bin Laden í síðuna en í stað þess að fara inn og klára verkið hafi hann gripið konur sem voru nærstaddar og ýtt þeim frá þar sem hann óttaðist að þær væru klæddar sprengjuvestum. O'Neill hafi síðan skotið tveimur skotum sem hæfðu.
Var það fyrsta skotið, skot númer tvö eða jafnvel þrjú?
Samkvæmt New York Times vill þessi maður ekki koma fram undir nafni enda er blátt bann lagt við því að greina frá verkefnum SEAL. En hann hafi, líkt og allir aðrir sem tóku þátt í aðgerðinni, vitað að sannleikurinn um hver skaut bin Laden yrði lýðnum ljós einhvern daginn.
En svo virðist sem menn séu ekki sammála um hvort fyrsta skotið hafi kostað bin Laden lífið eða skotin sem hæfðu hann síðar í aðgerðinni. Einhverjir sérsveitarmenn tala um að O'Neill hafi skotið bin Laden eftir að hann var látinn. Blaðamaður NYT segir að það muni jafnvel aldrei liggja ljóst fyrir hvaða kúla það var sem drap hryðjuverkaforingjann enda hópur vopnaðra manna með næturgleraugu sem réðust til atlögu á fylgsni hans í Abbottabad. Herinn birti aldrei mynd af líkinu og tilkynnti einungis að það hafi verið brennt og öskunni dreift á haf út.
Sannfærður um að þetta væri hans síðasta
Robert James O’Neill lýsir því í viðtali við Washington Post hve sannfærður hann hafi verið um að þetta væri síðasta aðgerðin og um leið síðasti dagur lífs síns er hann stökk út úr þyrlunni í garð Osama bin Laden. „Mér datt ekki í hug að ég myndi lifa af,“ segir hann en í fimmtán ár hafði hann tekið í hverri hættuförinni á eftir annarri. Árásum á leynistaði al-Qaeda í Írak, árásum á sómalska sjóræningja og svo mátti lengi telja.
O’Neill er einn þeirra tólf sérsveitarmanna sem tóku þátt í aðgerðinni þann 2. maí 2011 og hann segist hafa undirbúið sig andlega undir að týna lífi í aðgerðinni enda fullviss um að þeir myndu mæta þungvopnuðum liðsmönnum al-Qaeda við komuna. Það sem hann átti ekki von á var að komast á spjöld sögunnar sem maðurinn sem drap Osama bin Laden, manninn sem bandarísk stjórnvöld lögðu ofuráherslu á að fanga.
O’Neill staðfestir í viðtalinu við Washington Post að hann sé maðurinn sem fyrstur fór inn í herbergi bin Laden þessa nótt en þegar hann kom inn í herbergi bin Ladens var hryðjuverkaleiðtoginn þar inni ásamt yngstu eiginkonu sinni. WP segist hafa fengið það staðfest frá tveimur öðrum liðsmönnum SEAL sem tóku þátt í aðgerðinni að O'Neill hafi skotið bin Laden til bana.
O'Neill ákvað að segja söguna nú, tæplega tveimur árum eftir að Matt Bissonnette, sem einnig tók þátt í aðgerðinni, gaf út bók sína, No Easy Day, um aðgerðina. Þar er því haldið fram að sá sem fór fyrstur hafi verið sá sem drap bin Laden.
Undanfarið ár hefur orðrómur verið uppi um hlut O'Neills í aðgerðinni meðal hermanna og þingmanna á Bandaríkjaþingi.
Tók ákvörðun um að segja sannleikann í skyndingu
Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að koma fram undir nafni en O’Neill segist hafa tekið þessa ákvörðun eftir að hafa átt fund með ættingjum fórnarlamba hryðjuverkaárásirnar þann 11. september 2001 í sumar.
O’Neill sem vinnur við að koma á samkomur og flytja hvatningaræður, hafði verið beðinn um að koma fram á samkomu ættingja fórnarlamba árásarinnar á Tvíburaturnana í safni tileinkuðu minningu árásarinnar skömmu áður en safnið var opnað almenningi. Að sögn O'Neill var stundin afar tilfinningaþrungin og ákvað hann á staðnum að hann myndi greina frá dauða bin Laden. Hann segir að ættingjarnir hafi sagt honum eftir á að þetta hafi gert þeim gott - að heyra hvernig maðurinn sem skipulagði hryðjuverkaárásina á Bandaríkin - lést.
Hlustaði á Obama, leit á líkið og kláraði samlokuna
Viðtalið við O'Neill er ítarlegt og hægt að lesa það hér. En einungis nokkrum klukkustundum eftir að bin Laden var allur var O’Neill kominn aftur í herstöð Bandaríkjanna í Jalalabad í Afganistan að borða samloku í morgunmat. Þar skammt frá var lík bin Laden geymt. Skömmu síðar kom Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fram í sjónvarpi og greindi frá atburðarrásinni.
„Bandaríkin hafa stýrt aðgerð sem kostaði Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda og hryðjuverkamanninn, sem bar ábyrgð á morðum þúsunda saklausra karla, kvenna og barna, lífið,“ sagði Obama í ávarpi til bandarísku þjóðarinnar.
O’Neill segir að hann hafi sem snöggvst litið á skjáinn og síðan á pokann með líki Osama bin Laden og síðan klárað samlokuna sína.
Uppljóstranir þeirra O'Neill og Bissonnette hafa valdið miklum usla á æðstu stöðum og þá ekki síst meðal yfirmanna SEAL enda stranglega bannað að tjá sig opinberlega um starfsemi sveitarinnar. Er nú óttast að þetta geti þýtt hefndaraðgerðir af hálfu al-Qaeda liða gegn bandarískum ríkisborgurum.
O'Neill lét af störfum hjá hernum árið 2012 eftir að hafa tekið þátt í yfir 400 aðgerðum á vegum hersins. Hann á gott safn af heiðursorðum fyrir vasklega framgöngu fyrir hönd Bandaríkjanna, þar á meðal tvær silfurstjörnur og fjórar bronsstjörnur.
Hann leiddi meðal aðgerðina þegar skipstjórinn Richard Phillips, var frelsaður úr höndum sjóræningja árið 2009 og tveimur árum áður tók hann þátt í björgun Marcus Luttrell, liðsmanns í SEAL í Afganistan. Þessar tvær aðgerðir hafa ratað á hvíta tjaldið, Captain Phillips og Lone Survivor.