Fær styrk til að rannsaka tröll

Tröll í Bankastætinu. Ætli íslensku tröllin eigi frændur í Borgundarhólmi?
Tröll í Bankastætinu. Ætli íslensku tröllin eigi frændur í Borgundarhólmi? Árni Sæberg

Rannsóknarráð Danmerkur hefur ákveðið að styrkja rannsókn á tilvist neðanjarðartrölla í Borgundarhólmi. Nemur styrkurinn 2,5 milljónum danskra króna, eða 52 milljónum íslenskra króna. 

Styrkinn hlýtur Lars Christian Kofoed Rømer, doktorsnemi og kennari í mannfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, sem undanfarin tvö ár hefur meðal annars rannsakað athafnir drauga. Með styrknum segir Lars að hann geti nú rannsakað hin raunverulegu tengsl manna og trölla á dönsku eyjunni.

Borgundarhólmur er vel þekktur fyrir blómstrandi ferðamannaiðnað, sem byggist að mestu á þeirri trú að á eyjunni sé fjölmenn byggð neðanjarðar. Þar búi tröll sem komi aðeins út á nóttunni.

Kofoed Rømer mun heimsækja eyjuna í leit að þessum tröllum, og nota til þess hinn 52 milljóna króna styrk. „Mér finnst það heillandi hvernig sögurnar af tröllunum halda áfram að þrífast í nútímasamfélagi og mig langar til að athuga áþreifanlegar birtingarmyndir þeirra, og hvernig tröllin verka gagnkvæmt á íbúa Borgundarhólms,“ segir Kofoed Rømer í viðtali við Politiken.

Hörð gagnrýni í kjölfar niðurskurðar

Styrkveitingin hefur mætt harðri gagnrýni í Danmörku, sem glímir við niðurskurð í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Efasemdir hafa vaknað meðal Dana um hvort rétt sé að verja peningum til rannsókna sem þessara. Stjórnarformaður rannsóknarráðsins, Peter Munk Christiansen, lýsir þó yfir fullu trausti á að rannsóknin eigi eftir að reynast nytsamleg. 

„Við trúum því að rannsóknir á efnum sem þessum eigi að fá styrki til jafns við öll önnur rannsóknarsvið. Við viljum hafa breitt yfirgrip og ekki bara eltast við það sem er vinsælt einmitt núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert