Hundruð þúsundir manna komu til Berlínar í dag til að fagna 25 ára afmæli þess þegar Berlínarmúrinn féll. Víða mátti sjá fólk sitja fyrir myndatöku hjá þeim fáu bitum af múrnum sem eftir eru. Aðrir skoðuðu listaverkið sem felst í þeim sjö þúsund blöðrum sem raðað hefur verið 15 kílómetra eftir jörðinni þar sem múrinn stóð.
Meginhátíðahöldin verða á morgun þegar tónleikar verða haldnir á torginu fyrir framan Brandenborgarhliðið. Þaðan verður flugeldum skotið og fyrstu blöðrunum sleppt, en allar sjö þúsund blöðrurnar verða leystar frá jörðinni til að tákna fall múrsins.
Angela Merkel sagði í ræðu í dag að sameinuð Berlín hefði að miklu leyti orðið tákn um sameinaða Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhaíl Gorbatsjov, sagði daginn gleðidag fyrir fólkið í Evrópu.
Gorbatsjov var þó ómyrkur í máli þegar hann sagði að Vesturlönd hefðu gleymt sér í sigurgleðinni. Sagði hann að átök í Mið-Austurlöndum og Evrópu ættu að vera skýr viðvörunarmerki.
„Blóðsúthellingar í Evrópu og Mið-Austurlöndum, á meðan samskipti stórveldanna verða stífari með hverjum deginum, eru mikið áhyggjuefni. Heimurinn vegur nú salt á brún hins síðara kalda stríðs. Einhverjir myndu segja að það væri þegar hafið.“
Gorbatsjov, sem var leiðtogi Sovétríkjanna frá 1985 til 1991, er af mörgum talinn eiga heiðurinn af falli Sovétríkjanna, þar sem hann jók samskipti við Vesturlönd og leitaði sátta þvert á víglínur kalda stríðsins.
Manfred og Edna Tschepe, bæði 72 ára gömul, segja í viðtali við BBC að árið 1989 hafi þau farið að sofa aðfaranótt 10. nóvember áður en þau heyrðu fréttirnar. „Því miður sváfum við í gegnum atburðina,“ segir Manfred kíminn. En þegar hann gekk upp úr neðanjarðarlestarstöðinni daginn eftir á leið til vinnu voru göturnar troðnar af fólki.
„Ég heyrði að múrinn væri farinn en ég hugsaði að það gæti ekki verið. Þetta var svo ólíklegt. Ég gat ekki trúað þessu.“