„Við ætlum að sannfæra fólk um Katalónar eiga skilið tækifæri til þess að kjósa um sjálfstæði héraðsins, líkt og Skotar gerðu fyrir nokkrum vikum og íbúar Quebec fyrir nokkrum árum. Af hverju ekki Katalónar?“ spyr Artur Mas, leiðtogi Katalóníuhéraðsins, í samtali við fréttamann AFP.
Í dag fer fram atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Atkvæðagreiðslan er hins vegar ekki viðurkennd af stjórnvöldum landsins og því aðeins um táknrænan gjörning að ræða. Katalónar krefjast þess að fá raunverulega atkvæðagreiðslu líkt og Skotar fengu fyrr í haust. „Þrátt fyrir erfiðleikana sem hafa steðjað að okkur, þá erum við stödd hér í dag. Margir mæta og kjósa á þessum frábæra degi,“ heldur Mas áfram.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, segist ekki hafa heimild til þess að halda atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Stjórnarskrá landsins heimili ekki slíkt.