Ein hættulegustu hryðjuverkasamtök Egyptalands, Ansar Beit al-Maqdis, hafa gengið til liðs við Ríki íslams og myndað bandalag við samtökin sem ráða yfir hluta Íraks og Sýrlands.
Egypsku samtökin bera ábyrgð á fjölmörgum hryðjuverkum sem framin hafa verið á Sínaískaganum frá því her landsins hrakti forsetann, Mohamed Morsi, frá völdum í júlí í fyrra.
Ansar-samtökin hafa áður lýst yfir stuðningi við Ríki íslams en hingað til neitað því að vera í bandalagi með samtökunum.
Talsmaður innanríkisráðherra Egyptalands, Hany Abdel Latif, segir að þetta breyti litlu sem engu. „Þetta eru bara mismunandi nöfn á sömu hryðjuverkamönnunum.“
Ansar Beit al-Maqdis-samtökin urðu til í kjölfar þess að forseta Egyptalands, Hosni Mubarak, var steypt af stóli í uppreisninni í kjölfar arabíska vorsins árið 2011. Samtökin hafa ítrekað gert árásir á ísraelska hermenn og lögreglumenn sem og egypska starfsbræður þeirra.