Fann tvíburasystur sína á Youtube

Anais Bordier og Samantha Futerman
Anais Bordier og Samantha Futerman CNN

Líf tvíburana Anais Bordier og Samantha Futerman tók heldur betur óvæntan snúning fyrir um það bil ári þegar vinur Bordier, sem er uppalin í Frakklandi, sendi henni skjáskot af myndbandi af Youtube, þar sem tvíburasystir hennar, Futerman, kom fyrir.   

„Ég velti fyrir mér hver hefði sett myndband af mér á Youtube,“ segir Bordier við blaðamann CNN og hlær. Þegar hún kom heim til sín horfði hún aftur á myndbandið og áttaði sig á því að þetta væri ekki hún heldur stelpa sem leit nákvæmlega eins út og bjó í Bandaríkjunum.

Bordier lagðist í rannsóknarvinnu og komst að því hvaða kona væri í myndbandinu. Hún fann út að þær áttu afmæli sama dag og voru báðar ættleiddar frá sömu borg í Suður-Kóreu. Bordier ákvað í kjölfarið að senda Futerman skilaboð á Facebook.

Futerman, sem ólst upp í New Jersey í Bandaríkjunum, sagði að það hafi verið skrýtið að fá póst frá sjálfri sér á Facebook og dró hún það að svara skilaboðunum í nokkra daga en hugsaði svo með sér að þetta gæti verið satt.

Tengingin mjög sterk

Bordier segir að sem einkabarn hafi það verið magnað að komast að því að hún ætti systur. Hvað þá að vera tvíburi þar sem tvíburar eiga svo ótrúlega margt sameiginlegt. „Það er mjög sterk tenging á milli tvíbura sem er í raun ekki hægt að útskýra. Við skiljum hvora aðra án þess að þurfa að tala,” sagði Bordier.

Þær segja að foreldrar þeirra beggja séu hæstánægðir með fréttirnar, þó svo að þeir hafi verið í uppnámi fyrst, þar sem foreldrarnir vissu ekki að stelpurnar væru tvíburar þar sem það kom hvergi fram á pappírum við ættleiðingu.

„Mamma sagði að hún hefði ættleitt okkur báðar ef hún hefði vitað af því að það væri verið að slíta okkur í sundur,“ segir Futerman.

Systurnar hafa reynt að hafa samband við líffræðilegu móður sína en segja að hún hafi ekki áhuga á að endurnýja samband sitt við þær. „Ef við lærðum eitthvað af þessu, þá er það að allir hlutir gerast eins og þeir eiga að gerast,“ segir Futerman.

„Og ef hún vill hafa samband við okkur einn daginn, þá erum við hér, við erum til í það og við erum tilbúnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert