Grænfriðungur slasaðist illa í dag þegar hann féll fyrir borð við Kanaríeyjar. Rakst fótur konunnar í skrúfu slöngubáts með þeim afleiðingum að hann brotnaði.
Konan féll útbyrðis þegar slöngubátur spænska sjóhersins sigldi í veg fyrir þrjá báta Grænfriðunga en samkvæmt upplýsingum frá spænska varnarmálaráðuneytinu voru aðgerðarsinnar á vegum Grænfriðunga að reyna að komast um borð í olíuleitarskipið Rowan Renaissance.
Grænfriðungar segja það ekki rétt heldur hafi verið um friðsamleg mótmæli að ræða.
Konan er 23 ára og frá Ítalíu. Grænfriðungar birtu myndband af árekstrinum á Youtube síðu sinni.