Þrátt fyrir hatramma andstöðu heima fyrir og volgar undirtektir gestgjafa sinna í Ástralíu hefur Barack Obama sýnt það á hliðarlínum G20 fundsins í Brisbane að hann hyggst keyra áfram stefnu sína í loftslagsmálum og skorar á aðrar þjóðir að láta ekki sitt eftir liggja.
Forsetinn hefur staðfest fregnir þess efnis að Bandaríkin muni leggja til 3 milljarða dala í loftslagssjóðinn Green Climate Fund, sem er ætlað að hjálpa þróunarlöndunum að vinna úr áhrifum hækkandi hitastigs á jörðinni.
Hann ítrekaði að engir hefðu meiru að tapa en löndin á Asíu-Kyrrahafssvæðinu, sérstaklega Ástralía.
„Engin þjóð er ónæm og allar þjóðir eru ábyrgar fyrir því að leggja sitt af mörkum,“ sagði Obama. „Þið eruð minnug þess sem ég sagði í upphafi, að Bandaríkin og Ástralía ættu margt sameiginlegt. Nú, eitt af því sem við eigum sameiginlegt er að við framleiðum mikið af kolefni, sem þýðir að við verðum að grípa til aðgerða.“
Í bakherbergjum hafa fulltrúar Ástralíu þráast við að samþykkja orðalag í opinberri yfirlýsingu, þar sem ríki heims eru hvött til að leggja fjármuni í loftslagssjóðinn. Obama hefur sagt að þessum fjármunum verði m.a. varið til að koma upp viðvörunarkerfum, flóðvarnagörðum og loftslagsþolnum innviðum, auk þess sem bændur verða styrktir til að rækta endingarbetri uppskeru.
Forsetinn lýsti ánægju sinni með nýsett markmið Kína í loftslagsmálum og sagði að ef Bandaríkin og Kína gætu komist að samkomulagi, ætti það líka við um aðrar þjóðir. Hans bíður hins vegar slagur heima fyrir, þar sem repúblikanar ráða nú lögum og lofum í báðum þingdeildum.
Mitch McConnell, væntanlegur leiðtogi öldungadeildarmeirihlutans, hefur kallað samkomulag Obama við Kína þátt í „hugmyndafræðilegu stríði gegn kolum“ og gefið til kynna að repúblikanar muni leitast við að draga úr íþyngjandi áhrifum losunarreglugerða.