Vill rússneska Wikipedia-síðu

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti. AFP

Forsetabókasafnið í Moskvu hefur gefið það út að til standi að opna rússneska útgáfu af alfræðivefsíðunni Wikipedia, til þess að „tryggja íbúum landsins öruggan aðgang að nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum um landið“.

Wikipedia er samansafn upplýsinga sem netverjar safna saman. Þar má finna gríðarlegt magn af upplýsingum um Rússland, en yfirmenn bókasafnsins í Moskvu eru ekki nægilega ánægðir og hafa því ákveðið að stofna eigin rússneska útgáfu af síðunni. 

Ekki er vitað enn sem komið er hvort lokað verði fyrir aðgang að hinni upprunalegu Wikipedia-síðu þegar hin rússneska er komin í loftið. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur áður lýst netinu sem „sérverkefni á vegum CIA“. Nú fyrir skömmu tóku einnig gildi lög í landinu þar sem allir bloggarar með fleiri en þrjú þúsund fylgjendur þurftu að skrá sig sérstaklega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert