Lést úr áfengiseitrun á afmælisdaginn

AFP

Áströlsk stúlka, sem lést úr áfengiseitrun á 18 ára afmælisdaginn sinn fyrir tveimur vikum, hafði drukkið skot af pólsku áfengi sem inniheldur 95% áfengismagn. Hún hét Nicole Bicknell og hneig niður stuttu eftir að hún drakk nokkur skot af pólska áfenginu Spirytus Rektyfikowany á afmælisdaginn.

Samkvæmt frétt The Independent drakk stúlkan sjaldan áfengi og þekkti ekki styrk áfengisins. Hún hafði drukkið fleiri áfenga drykki sama kvöld. Fjölskylda stúlkunnar kallar nú eftir því að drykkurinn verði bannaður í Ástralíu. Karlkyns vinur Bicknell bauð henni upp á skotin. 

„Ég skil ekki af hverju svona sterkt áfengi er selt í vínbúðum,“ sagði afi stúlkunnar, Kevin McLean, í samtali við ástralska dagblaðið The Sunday Times. 

„Enginn þarf að kaupa áfengi sem er svona sterkt. Það ætti að taka það úr hillum búðanna svo þetta gerist ekki hjá einhverri annarri fjölskyldu. Við viljum að þetta verði bannað í Ástralíu og það verði ólöglegt að selja það.“

Móðir stúlkunnar, Belinda Bicknell, sagðist vera mjög reið yfir því að drykkurinn hafi ekki verið bannaður þrátt fyrir að áströlsk heilbrigðissamtök hafi kallað eftir því fyrir tveimur árum.

„Þetta er eins og með allt annað. Það þurfa fleiri að deyja áður en eitthvað verður gert,“ sagði hún. „Ég er mjög reið núna.“

Margar stórar vínbúðir er nú búnar að fjarlæga Spirytus rektyfikowany úr hillum sínum en enn er hægt að fá það í minni verslunum. 

Drykkurinn er mjög aðgengilegur í Póllandi þar sem hann er notaður í heimagert áfengi og blöndur.

Næstum því þrjú hundruð manns voru við jarðarför Bicknell, sem fram fór í Thornile í Vestur-Ástralíu á miðvikudaginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert