Norskum lækni bannað að fara til Gaza

AFP

Ísraelsk yfirvöld hafa bannað norska lækninum Mads Gilbert að fara inn á Gaza en neita því að hann hafi verið settur í lífstíðarbann.

„Honum hefur verið bannað að koma til Ísraels,“ segir talsmaður utanríkisráðuneytisins, Paul Hirschson, við AF- fréttastofuna og neitar því að Gilbert sé bannað að fara til Gaza.

Ekki er hægt að komast til Gaza í gegnum Ísrael öðruvísi en um Erez-landamærastöðina. Eins er hægt að fara um Rafah við landamæri Egyptalands. Sú leið hefur hins vegar lokuð síðan 24. október eftir sjálfsvígsárásir á Sínaískaga. Því er aðeins hægt að komast til Gaza í gegnum Ísrael.

Greint var frá banninu í norskum fjölmiðlum í síðustu viku en þar kom fram að Gilbert hefði verið neitað um að koma framar til Gaza af hálfu ísraelskra yfirvalda.

Gilbert, sem hefur unnið á Gaza, er einn af tugum lækna sem rituðu undir bréf sem birt var í tímaritinu Lancet í júlí þar sem árásum Ísraela á Gaza var lýst sem glæpum gegn mannkyninu.

Stríðið, sem lauk 26. ágúst, kostaði 2200 Palestínumenn lífið og 73 Ísraela.

Hirschson neitar því að um hefnd sé að ræða heldur sé þetta öryggisráðstöfun án þess að vilja útskýra það nánar fyrir blaðamanni AFP.

Gilbert starfaði á Shifa-sjúkrahúsinu í Gazaborg um áramótin 2008/2009 þegar yfir 1.440 Palestínumenn voru drepnir af Ísraelsmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert