Árásin á bænahús gyðinga í Jerúsalem í morgun er blóðugasta árásin í borginni í mörg ár. Fjórir létust þegar að tveir palestínskir menn réðust þar inn vopnaðir. Það er sjaldgæft að ráðist sé á bænahús gyðinga samkvæmt frétt AFP og hefur árásin vakið óhug í öllu Ísrael. Óttast er að deilan á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna muni nú magnast og jafnvel snúast frekar að trúarbrögðum en áður.
Mennirnir fjórir sem létust í árásinni voru allir Ísraelsmenn með tvöfaldan ríkisborgararétt. Þrír þeirra voru jafnframt með bandarískan ríkisborgararétt og sá fjórði með breskan. Talið er að þeir hafi allir verið rabbínar.
Palestínsku árásarmennirnir voru skotnir til bana af lögreglu.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu hét því að Ísrael myndi bregðast harkalega við blóðbaðinu.
„Ég hef fyrirskipað að heimili Palestínumannanna sem báru ábyrgð á árásinni verði jöfnuð við jörðu,“ sagði hann m.a. og að árásin í dag snerist um „bardagann“ um borgina heilögu.
Forseti Palestínu hefur nú fordæmt árásirnar á meðan Hamas samtökin fögnuðu þeim. Palestínskir skæruliðar í suður Gaza héldu uppi hnífum og öxum með myndir af árásarmönnunum. Aðrir gengu um og dreifðu kökum að sögn fréttamanns AFP.
Árásin hófst rétt fyrir klukkan 7 í morgun á staðartíma er árásarmennirnir réðust inn í Har Nof bænahúsið með kjötaxir og byssu.
Ásamt mönnunum fjórum sem létust særðust átta manns. Vitni segjast hafa séð fórnarlömb án handa og fóta eftir árásina.
Árásarmennirnir hafa nú verið nafngreindir sem Uday og Ghassan Abu Jamal, frændur frá Jabal Mukaber í austur Jerúsalem. Þeir voru báðir á þrítugsaldri.
Sérfræðingar hafa varað við hörðum viðbrögðum frá Ísrael sem gætu magnað upp deiluna á milli ríkjanna tveggja.
„Tveir komu út úr bænahúsinu og það vantaði á þá hálft andlitið, eins og ráðist hafi verið á þá með hnífum,“ sagði íbúi í nágrenninu Sarah Abrahams.
Sjúkraliðinn Moti Bukchi sagði að ástandið hafi verið hrikalegt.
„Inni í bænahúsinu höfðu sumir verið særðir með byssuskotum, aðrir höfðu misst útlimi útaf kjötexi,“ sagði hann í samtali við AFP og bætti við að hann hefði aldrei séð svona gróf sár.
Borgarstjóri Jerúsalem, Nir Barkat sagðist vera í áfalli.
„Að slátra saklausu fólki á meðan það er að biðja. Það er brjálæði,“ sagði hann.
Bænahúsið Har Nof er mjög nálægt fyrrum palestínska þorpinu Deir Yassin þar sem gyðingar drápu fleiri en hundrað íbúa árið 1948.
Þrátt fyrir mikla reiði í samfélaginu eftir árásirnar hefur forsætisráðherrann hvatt samlanda sína til þess að virða lögin og ekki taka þátt í hefndaraðgerðum.
„Það er óheimilt að taka lögin í sínar eigin hendur, þó svo að fólk sé reitt,“ sagði hann.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur jafnframt fordæmt árásina. Hann kallaði hana „hreinan hrylling og tilgangslausa grimmd.“ Jafnframt hvatti hann palestínsk yfirvöld til þess að fordæma árásina.
Hamas samtökin kölluðu þó eftir frekari árásum og sagði að árásin í morgun væri svar við dauða rútubílstjóra sem fannst dáinn í bíl sínum á sunnudaginn í austur Jerúsalem.
Krufning Ísraelsmanna gaf ekki til kynna að dauði hans hafi farið fram með saknæmum hætti en palestínskur læknir sagðist efast um að maðurinn hafi framið sjálfsmorð og gaf til kynna að hann hefði verið myrtur.