Hann situr í lífstíðarfangelsi í Kaliforníu fyrir níu morð. Hann skipulagði m.a. morð á óléttri leikkonu, Sharon Tate, árið 1969. Og nú ætlar Charles Manson að giftast. Hann er áttræður. Verðandi eiginkonan er 26 ára.
Margir fá gæsahúð er þeir heyra Charles Manson nefndan á nafn. Manson-fjölskyldan svokallaða, söfnuður sem samanstóð að mestu af ungum fylgiskonum Mansons, bar ábyrgð á níu morðum seint á sjöunda áratugnum.
Eiginkonan tilvonandi, Afton Elaine Burton, hefur ítrekað heimsótt Manson í fangelsið. Burton segir þau Manson innilega ástfangin. „Ég er algjörlega hans og hann er algjörlega minn. Þetta er það sem ég fæddist til að gera, þú veist. Ég veit ekki hvað ég get annað sagt,“ sagði Burton í viðtali við CNN í ágúst. Hún segist hafa fylgt „heimspeki“ Mansons frá því að hún var unglingur og flutti til Corcoran, þar sem fangelsið stendur, til að geta verið nær honum. Þau talast við í síma á hverjum degi og hún heimsækir hann í fangelsið um hverja helgi.
Manson var dæmdur til dauða fyrir sjö morð en þeim dómi var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Hann hefur nú setið í fangelsi í yfir fjóra áratugi.
En hvaðan kom þessi maður, þetta skrímsli sem fékk hóp ungs utangarðsfólks til fylgis við sig á sjöunda áratugnum og lét þau svo fremja grimmileg morð, m.a. myrtu þau eiginkonu leikstjórans Romas Polanski, Sharon Tate, sem var gengin rúma átta mánuði með barn þeirra hjóna.
Manson er fæddur 12. nóvember árið 1934 og er því nýorðinn áttræður. Hann fæddist í Ohio og var skírður Charles Milles Maddox. Ekki átti Charles litli sjö dagana sæla í æsku. Talið er að móðir hans, Kathleen, hafi selt hann barnlausri konu fyrir kippu af bjór. Frændi hans þurfti að leita hans og færa hann aftur heim til fjölskyldunnar. Móðir hans er sögð hafa stundað vændi og verið um tíma í fangelsi. Hún var aðeins sextán ára er hún átti Charles.
Síðar tók hann upp ættarnafn stjúpföður síns, Manson.
Er Manson var 12 ára var hann gripinn við þjófnað og sendur að heiman í skóla. Næstu tvo áratugina flakkaði hann á milli unglingaheimila, meðferðarstofnana og fangelsa fyrir ýmsa glæpi.
Manson hefur tvisvar verið giftur. Fyrst var hann giftur Rosalie Jean Willis á árunum 1955-1958 og síðar Candy Stevens á árunum 1959-1963. Talið er að hann hafi eignast að minnsta kosti tvö börn, synina Charles M. Manson sem lést árið 1993 og Charles Luther Manson.
Í mars árið 1967 var honum sleppt úr fangelsi. Manson var ekki sjálfur hrifinn af því. „Ó nei, ég get ekki farið þarna út, ég veit að ég get ekki aðlagast umheiminum, ekki eftir allt sem á hefur gengið í mínu lífi,“ sagði hann við starfsmenn fangelsisins.
En Manson fékk frelsið og flutti til San Francisco. Hann fór fljótlega að safna að sér hópi fólks sem flutti svo saman á Spahn-búgarðinn í Kaliforníu. Þar gat hópurinn athafnað sig í friði.
Í júlí árið 1969 er talið að Manson hafi fyrirskipað sitt fyrsta morð. Fórnarlambið var tónlistarkennarinn Gary Hinman. Hann hafði kynnt Manson fyrir plötuframleiðandanum Terry Melcher. Sá hafði sýnt tónlist Mansons áhuga en síðar hætt við að vinna með honum.
Melcher þessi bjó að Cielo Drive. Er hann flutti út tóku leikstjórinn Roman Polanski og eiginkona hans, leikkonan Sharon Tate, húsið á leigu.
En blóðbaðið hófst fyrir alvöru í byrjun ágúst þetta sumar, 1969. Manson fyrirskipaði litlum hópi sinna helstu fylgjenda að myrða fimm manns sem voru á heimili Polanski í nágrenni Hollywood.
Manson fannst ekki nógu vel hafa tekist til svo daginn eftir fór hann með hópi fylgjenda sinna í leit að fleiri fórnarlömbum. Hópurinn réðst inn í hús og myrti hjón með grimmilegum hætti.
Það var ekki fyrr en í október þetta ár að Manson og fylgjendur hans voru handteknir, grunaðir um bílþjófnað. Þann 6. nóvember dró svo til tíðinda í málinu er konan sem hafði verið ákærð fyrir að myrða tónlistarkennarann Himnan, játaði fyrir samfanga sínum að hafa myrt Sharon Tate. „Af því að við vildum fremja glæp sem myndi hneyksla allan heiminn, að heimsbyggðin yrði að líta upp og fylgjast með.“
Mánuður leið áður en Manson og fjórir meðlimir „fjölskyldu“ hans voru handteknir og ákærðir fyrir að myrða Tate og vini hennar. Morðin voru sögð framin til að reyna að koma af stað kynþáttastríði. Manson vildi að allir héldu að blökkumenn hefðu staðið að baki morðunum.
Réttarhöldin hófust 16. júní árið 1970. Þau stóðu í sjö mánuði. Kviðdómurinn tók sér tíu daga til að taka ákvörðun en fimmmenningarnir fengu allir dauðadóm. Ári síðar var dauðarefsing afnumin í Kaliforníu og dómarnir breyttust í lífstíðarfangelsi.
Manson hefur tólf sinnum beðið um lausn til reynslu úr fangelsi en ávallt verið synjað, síðast í apríl árið 2012. Hann getur ekki sótt um reynslulausn aftur fyrr en árið 2027.
Samkvæmt fangelsismálayfirvöldum í Kaliforníu glímir Manson við geðklofa og ranghugmyndir. Hann hefur 108 sinnum brotið umgengni- og hegðunarreglur fangelsisins og hefur aldrei sýnt nokkra iðrun.
Hér að neðan er heimildarmynd um Manson og morðin óhugnanlegu.