Hvar felur þú 120 tonna flugvél?

Þrívíddarteikning af svæðinu sem þegar hefur verið leitað á.
Þrívíddarteikning af svæðinu sem þegar hefur verið leitað á. AFP

Átta mánuðir eru nú liðnir frá því að malasísk farþegaþota með 239 manns um borð hvarf sporlaust og ekkert hefur til hennar spurst síðan. Hvarf þotunnar er eitt dularfyllsta atvik flugsögunnar. Engar vísbendingar hafa fundist um hvar vélina sé að finna og ekkert brak, ekki ein einasta skrúfa, hefur komið í leitirnar. Enn er þó leitað þó að verulega hafi dregið úr umsvifunum í sunnanverðu Indlandshafi. Þangað er talið að vélinni hafi verið flogið. Vélin var á leið frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína er hún hvarf af ratsjám. 

Leitarflokkarnir hafa þó ekki gefist upp enda margir enn sannfærðir að einhvers staðar á botni hafsins liggi vélin. Enn eru kafbátar við leit á svæðinu og þó að þeir hafi ekki fundið flak vélarinnar hafa þeir uppgötvað ævintýralegt landslag með háum fjöllum, djúpum dölum og kulnuðum eldfjöllum. 

Ástralir, Kínverjar og Malasar taka enn þátt í leitinni. Ástralska leitarteymið notast m.a. við kafbáta en verkinu miðar seint. Þó voru tæplega 5.000 ferkílómetrar hafsbotnsins kortlagðir í síðasta mánuði. „Ég bið til guðs daglega að í dag sé dagurinn,“ segir Judith Zielke sem fer fyrir leitinni að flaki vélarinnar.

Nú er leitað á nýju svæði og eru leitarmenn þrátt fyrir allt bjartsýnir á að flakið muni finnast. Án flaksins segja þeir ættingja og aðstandendur þeirra sem voru um borð aldrei öðlast frið í sál sinni.

Svæðið sem enn á eftir að leita á er umfangsmikið og segir Zielke að ekki verði búið að kortleggja það fyrr en í apríl. 

Enn er fólk sem efast um að vélin hafi farist, heldur að henni hafi verið lent heilu og höldnu einhvers staðar. „Ég mun ekki gefa upp vonina fyrr en annað kemur í ljós,“ segir Sarah Bajc en eiginmaður hennar, Philip Wood, var um borð í vélinni, einn þriggja Bandaríkjamanna. Hún er í hópi fólks sem hefur ráðið teymi óháðra rannsóknarmanna til að reyna að komast að hinu sanna. „Hvers vegna þegja allir þunnu hljóði? Þetta er risastór ráðgáta,“ segir Bajc.

Margir sérfræðingar sem rýnt hafa í fáanleg gögn um ferðir vélarinnar telja að hún hafi tekið skarpa beygju eftir að hafa komið inn í víetnamska lofthelgi. Hún hafi svo flogið í nokkrar klukkustundir þar til hún varð eldsneytislaus. Hún hafi í kjölfarið hrapað í Indlandshaf, á svæði sem hefur verið kallað Sjöundi boginn. Enginn getur þó staðfest hvers vegna þetta gerðist. Bilaði vélin? Var henni rænt?

„Ég var ekki hrifinn af kenningunni um rán en ég er farinn að halla mér meira að henni því hvers vegna flaug hún svona lengi?“ spyr Ron Bishop, ástralskur leitar- og björgunarsérfræðingur og yfirmaður flugkennsludeildar í háskólanum í Queensland. „Ef um bilun eða slys var að ræða, hvers vegna flaug vélin svona lengi?“ Hann telur þó ólíklegt að vélinni hafi verið lent heilu og höldnu og hún falin. „Hvar felur þú 120 tonna flugvél? Það er eins og að stela fíl úr dýragarði. Hvar geymir þú hann?

Ættingjarnir hafa engin svör fengið.
Ættingjarnir hafa engin svör fengið. AFP
STR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert