Kristján Jónsson
Leyniþjónustumenn víða á Vesturlöndum hafa miklar áhyggjur af því að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, IS, í Sýrlandi og Írak séu að koma sér upp hópum liðsmanna erlendis sem eigi að láta lítið fyrir sér fara en vera ávallt til taks. Fyrirbærið er á ensku nefnt „sleepers“. Þegar kallið kemur eiga þeir að fremja hryðjuverk í vestrænum borgum.
Kúrdískur embættismaður segir að IS hafi undir sinni stjórn margfalt fleiri vígamenn en áður hefur verið talið, að líkindum 200 þúsund manns þótt í sjálfu kjarnaliðinu séu mun færri. En ljóst er að bandalag nokkurra vestrænna ríkja og arabalanda þjarmar nú verulega að IS með loftárásum og hafa þær einnig eflt baráttukjark íraska hersins og hersveita Kúrda.
Fréttamaður norska ríkisútvarpsins, NRK, hefur eftir ónafngreindum liðsmanni IS, sem hefur fengið nóg af þátttöku í hryðjuverkum og rætt var við á laun í Tyrklandi, að samtökin hefðu ákveðið markmið í huga í Evrópu. „Ef bandalagið heldur áfram að varpa sprengjum á sveitir IS munu samtökin efna til hryðjuverka [í vestrænum ríkjum] til að veikja innra öryggi landanna og ýta þannig á að þau stöðvi sprengjuárásirnar,“ segir hann.