Kona á sjötugsaldri var handtekin í Japan í dag grunuð um að hafa eitrað fyrir eiginmann sinn með blásýru. Sex eiginmenn hennar og unnustar hafa látist með voveiflegum hætti.
Konan, Chisako Kakehi, 67 ára, hefur þegar fengið nafnbótina „svarta ekkjan“. Hún hefur fengið alls 800 milljónir jena, 850 milljónir króna, í arf og tryggingar eftir sjö eiginmenn og kærasta sína á síðustu tveimur áratugum.
Eiginmaður númer fjögur, Isao Kakehi, veiktist skyndilega heima og var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í desember sl. einungis tveimur mánuðum eftir að parið gekk í hjónaband. Við krufningu fannst mikið magn blásýru í blóði hans.
Í september í fyrra lést 75 ára gamall kærasti hennar en hann veiktist skyndilega eftir að parið hafði borðað saman á veitingastað.
Kakehi byrjaði að daðra við dauðann árið 1994 þegar fyrsti eiginmaður hennar varð bráðkvaddur 54 ára að aldri. Árið 2006 lést eiginmaður númer tvö úr heilablóðfalli 69 ára að aldri. Þriðji eiginmaðurinn lést árið 2008 en sá var 75 ára að aldri.
Það var síðan ári síðar sem unnusti hennar lést en hann var með krabbamein og sá næsti lést árið 2012 er hann datt af vélhjóli. Leifar blásýru fundust í líki hans.
Kakehi var síðan handtekin í dag en hún neitar því að hafa myrt eiginmann sinn í desember.